Um 5-7 þúsund manns gætu búið í húsnæði sem skipulagt er undir atvinnustarfsemi, samkvæmt nýrri skýrslu vinnuhóps um umbætur á húsnæðismarkaði sem Alþýðusamband Íslands (ASÍ) vekur athygli á í dag. Há leiga og skortur á leiguhúsnæði er talin vera veigamesta skýringin, en hópurinn telur að starfsmannaleigur og atvinnurekendur komi starfsmönnum sínum fyrir í óleyfisbúsetu.
Skýrslan var unnin af vinnuhópi sem skipaður var í tengslum við gerð Lífskjarasamninganna til að safna upplýsingum um fjölda óskráðra íbúða og leiðir til þess að fá eigendur óskráðra íbúða til þess að skrá þær opinberlega. Í vinnuhópnum starfa fulltrúar frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, Þjóðskrá, Eflingu og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS).
Samkvæmt vinnuhópnum skapar óleyfisbúseta ákveðna hættu þegar vá steðjar að, líkt og eldsvoði eða náttúruhamfarir, og gerir viðbragðsaðilum erfitt fyrir í björgunarstörfum.
Engin merki um samdrátt
Skýrsluhöfundar minnast á könnun sem Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu framkvæmdi á árinu 2017, en þar komu fram skýrar vísbendingar um töluverða aukningu á óleyfisbúsetu á höfuðborgarsvæðinu. Þá var áætlað að í kringum 3.500 til 4 þúsund manns byggju við slíkar aðstæður. Slökkviliðið mat það svo að ekki séu vísbendingar um að slík, búseta hafi dregist saman á þessum árum, en út frá því mati, auk talna um atvinnuhúsnæði yfir landið allt, mat vinnuhópurinn fjölda íbúa í óleyfishúsnæði yfir allt landið.
Samkvæmt mati vinnuhópsins mætti búast við að 5.290 til 6.800 manns búa í óleyfisíbúðum á landinu öllu. Um 60 prósent þeirra eru talin búa á höfuðborgarsvæðinu, en einnig er búist við töluverðum fjölda í öðrum landshlutum, ef miðað er við mannfjölda. Talið er að um 500-700 manns á Suðurlandi og 300-700 manns á Suðurnesjum búi í óleyfisíbúðum.
Eftirspurn gæti aukist
Samkvæmt skýrslunni er mikil uppsöfnuð íbúðaþörf á landinu, en byggja þarf þrjú þúsund íbúðir á hverju ári til að vinna hana upp á næstu tíu árum. Vinnuhópurinn telur að uppsöfnuð þörf fyrir íbúðir muni halda áfram að aukast á næstu árum ef ekki verður mikill brottflutningur frá landinu, en þá er talið líklegt að eftirspurn eftir ósamþykktu húsnæði haldi áfram að aukast.
Vinnuhópurinn bendir á að ástæður á bak við óleyfisbúsetu geti verið margþættar, en skortur á leiguhúsnæði og há leiga sé líkast til veigamesta skýringin. Þá séu einnig dæmi um að starfsmannaleigur og atvinnurekendur komi starfsmönnum sínum fyrir í óleyfisbúsetu sem hafa jafnvel ekki raunverulegt val um búsetu. Einnig spili það inn í að hluti erlends verkafólks sem dvelst tímabundið á landinu vegna vinnu kjósi hreinlega að búa tímabundið í eins ódýru húsnæði og mögulegt er.