Viðskiptum með hlutabréf í Kauphöll Íslands í janúar fjölgaði um 64 prósent frá sama mánuði árið áður. Þeim fækkaði hins vegar um 34 prósent frá desember 2020. Í janúar voru langflest viðskipti með bréf í Icelandair Group, eða 2.246 talsins. Það þýðir að 36 prósent allra þeirra 6.297 viðskipta sem voru með hlutabréf í Kauphöllinni í síðasta mánuði voru með bréf í flugfélaginu, sem er það skráða félag sem er með langflesta hluthafa. Þá voru þrisvar sinnum fleiri viðskipti með bréf í Icelandair en í því félagi sem kom þar á eftir í fjölda viðskipta, en það var Arion banki með 705 talsins.
Upphæðin sem átt var hlutabréfaviðskipti fyrir í janúar nam 83,9 milljörðum króna, eða um 4,2 milljörðum króna á dag að meðaltali. Það er 6,8 prósent hækkun frá desembermánuði og 29,5 prósent hækkun frá janúarmánuði 2020. Mest viðskipti í mánuðinum voru hins vegar með bréf Arion banka alls, 28,3 milljarðar króna, eða um 34 prósent heildarviðskipta. Til samanburðar voru gerð viðskipti með bréf í Icelandair Group fyrir 4,7 milljarða króna.
Úrvalsvísitalan hækkaði um 3,5 prósent milli mánaða og heildarmarkaðsvirði þeirra 23 félaga sem skráð eru á Aðalmarkað og First North var 1.662,5 milljarðar króna í lok síðustu viku. Það hækkað um 59,5 milljarða króna í síðasta mánuði.
Þetta kemur fram í viðskiptayfirliti Nasdaq Iceland, sem rekur íslensku Kauphöllina, fyrir janúarmánuð sem birt var í gær.
Mikil aukning í fyrra
Þessi þróun er áframhald af því sem átti sér stað á síðari hluta ársins 2020.
Úrvalsvísitalan, sem er saman sett úr gengi þeirra tíu félaga á markaði sem hafa mestan seljanleika, hækkaði um 20,5 prósent á árinu 2020, sem er næst mesta hækkun innan árs í áraraðir. Frá 2012 hefur hún einungis hækkað meira á tveimur árum: árið 2015, þegar hún hækkaði um 43,4 prósent, og árið 2019 þegar hún hækkaði um 31,4 prósent.
Til viðbótar við þessa hækkun öfluðu skráð félög sér 29 milljarða króna á markaði, en þar bar hlutafjárútboð Icelandair Group hæst, enda þriðja stærsta hlutafjárútboð í sögu íslenska hlutabréfamarkaðarins. Samhliða varð tvöföldun á fjölda einstaklinga sem áttu bréf skráð á markaðnum, enda þátttaka almennings í hlutafjárútboði Icelandair Group mikil.
Fjöldi viðskipta jókst mikið á síðasta ári þegar þau voru 56.337, eða 226 á dag. Það eru 58 prósent fleiri viðskipti en voru á árinu 2019 og mesti fjöldi viðskipta á hlutabréfamarkaði í tólf ár, eða frá hrunárinu 2008. Íslenskur hlutabréfamarkaður nær þurrkaðist út eftir bankahrunið í október það ár og því má segja að árið í fyrra sé metár hins endurreista hlutabréfamarkaðar þegar kemur að fjölda viðskipta.