Það kom Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, talsvert á óvart að sjá tillögu ASÍ um skerðingarlaust ár 2022 sem Drífa Snædal, forseti ASÍ, setti fram í pistli fyrir helgi. Þetta kom fram í máli ráðherrans í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag en Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, spurði Bjarna hvernig honum litist á þessa tillögu.
Guðmundur Ingi hóf fyrirspurn sína á því að segja að undur og stórmerki hefðu gerst því ASÍ hefði rumskað af þyrnirósarsvefni og hrokkið upp með andfælum af skerðingarsvefninum langa. Vitnaði hann í orð Drífu í fyrrnefndum pistli þar sem hún sagði að hér á landi hefði ekki tekist að tryggja afkomu fólks og að fullt tilefni væri til að hafa áhyggjur af spillingu og auknum ójöfnuði. Það yrði ekki sagt nógu oft að grundvöllur friðar og lýðræðis væri að tryggja afkomu, enginn mætti vera undanskilinn; launafólk, atvinnurekendur, öryrkjar og aldraðir. Allir ættu að búa við afkomuöryggi í sanngjörnu samfélagi.
Hann sagði að Drífa væri í pistli sínum að kynna hugmyndir um skerðingarlaust ár og að Flokkur fólksins hefði ítrekað sett fram frumvarp um skerðingarlaus tvö ár. Svo Guðmundur Ingi spurði Bjarna hvernig honum litist á þessar hugmyndir ASÍ. Einnig spurði hann í þessu samhengi hvernig honum litist á að stöðva skerðingar á húsaleigubótum og sérstökum húsaleigubótum.
Stöndum okkur „afburðavel“ í því að skipta því sem er til skiptanna með sanngjörnum hætti
Bjarni svaraði og sagði: „Ef við horfum á hóp þeirra sem sæta skerðingum vegna tekna í almannatryggingakerfinu vill ASÍ leggja upp með þá stefnu að við skilum mestu til þeirra úr þessum hópi sem hafa það best. Með afnámi skerðinga koma flestar krónur til þeirra sem hafa það best af þeim sem yfir höfuð sæta skerðingum, alveg augljóst. Þeir skerðast minnst sem hafa minnst. Þannig virkar kerfið í dag,“ sagði hann. „Ef þú afnemur allar skerðingarnar eru það þeir sem búa við minnstar skerðingar sem eru neðst í stiganum. Þetta kemur á óvart vegna þess að þetta er algerlega andstætt allri annarri hugmyndafræði sem hefur stafað frá ASÍ, til dæmis í skattamálum, og við höfum á þessu kjörtímabili einmitt lagt áherslu á að við skattalækkanir þá skiluðum við mestu þar sem þörfin væri mest.“
Vildi ráðherrann „minna á nokkrar grundvallarstaðreyndir um ráðstöfunartekjur heimilanna í landinu. Á Íslandi eru meðaltekjur meðal þess hæsta sem þekkist hvort sem litið er til Norðurlandanna eða OECD-ríkjanna. Á sama tíma er jöfnuður hvað mestur og stuðningskerfin fyrir fjölskyldur eru, samkvæmt skýrslu Axels Halls, á pari eða betri fyrir fjölskyldufólk en á Norðurlöndunum þannig að það er nánast sama í hvaða átt litið er. Við stöndum okkur afburðavel í því að skipta því sem er til skiptanna í þjóðfélagi okkar með sanngjörnum hætti meðal íbúa landsins,“ sagði hann.
„Segðu að þetta sé best haldna fólkið“
Í seinni ræðu sinni sagði Guðmundur Ingi að hann skildi ekki svör ráðherrans. „Hvernig í ósköpunum fær hann það út að þeir sem fá sérstakar húsaleigubætur standi vel og séu algerlega á góðum stað? Og hvernig í ósköpunum dettur honum í hug að einhver borði meðaltal launa? Það borðar enginn meðaltal launa, það er útilokað. Þú borðað það sem þú færð. Þeir sem eru til dæmis að detta út af atvinnuleysisskrá, hvert fara þeir? Þeir fara á félagslega kerfið. Hvernig virkar félagslega kerfið? Ef það eru einhvers staðar skerðingar þá eru þær þar. Þar er króna á móti krónu skerðing, skerðingar vegna maka. Þetta er svo ömurlegt.
Það er verið að setja fólk í þær aðstæður að það hefur ekki efni á húsaleigu, hefur ekki efni á mat fyrir börnin sín eða neitt vegna þess að það á að lifa á einni fyrirvinnu og það gat ekki einu sinni áður lifað á tveimur. Segðu að þetta sé best haldna fólkið, að þetta sé fólkið sem hefur það best og þar af leiðandi eigi ekki að taka skerðingar af því,“ sagði þingmaðurinn.
Þingmanni tekist að snúa öllu á hvolf
Bjarni kom aftur í pontu og sagði að því miður hefði þingmanninum tekist að snúa öllu á hvolf í þessari umræðu og lagt honum orð í munn.
„Ég var ekki að ræða sérstaklega um þá hópa sem hann nefnir hér að þyrftu að hafa betri kjör og meira á milli handanna. Ég verð að benda á þá staðreynd, vegna þess að hann kemur hér upp með hugmyndina um að afnema allar skerðingar. Það er hugmyndin sem háttvirtur þingmaður viðraði í ræðustól, að afnema allar skerðingar almannatrygginga eins og ASÍ, hann talaði um að ASÍ hefði vaknað af þyrnirósarsvefni og komið með þá góðu hugmynd. Þá benti ég á að það kæmi mér á óvart að heyra það úr þeirri átt vegna þess að það er svo auðvelt að sjá fyrir sér að þeir sem eru með fantagóðar lífeyristekjur myndu, við það að við myndum afnema allar skerðingar, halda þessum lífeyristekjum bara óbreyttum og fá bætur úr almannatryggingum. Það segi ég að er einfaldlega rangt,“ sagði ráðherrann.