Samdráttur í landsframleiðslu hjá aðildarríkjum Evrópusambandsins (ESB) nam 6,4 prósentum í fyrra, samkvæmt fréttatilkynningu frá Eurostat í gær. Þetta er minni samdráttur en búist er við að hafi átt sér stað hér á landi, en Hagstofan áætlar að hann hafi numið 7,6 prósentum.
Kreppan minnst í norðri
Í tilkynningu sinni birti Eurostat einnig áætlaðar tölur um landsframleiðslu í fyrra á meðal 10 aðildarríkja ESB. Samkvæmt þeim var samdrátturinn í fyrra minnstur í Norður-Evrópu en annars staðar í álfunni, en landsframleiðsla dróst aðeins saman um 1 til 3,5 prósent í Lettlandi, Svíþjóð og Litháen.
Höggið þyngra í Mið-og Suður-Evrópu
Samdrátturinn var nokkuð meiri í Þýskalandi, Tékklandi og Austurríki, en þar var hann á bilinu 5,3 til 7,4 prósent. Það er þó minni samdráttur en búist er við á Íslandi, en samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofu má gera ráð fyrir að landsframleiðsla hér dragist saman um 7,6 prósent.
Ísland væri frekar í flokki Miðjarðahafslandanna, sem koma verst allra aðildarríkja Evrópusambandsins úr kreppunni sem hófst í fyrra. Í Portúgal, Frakklandi, Ítalíu og á Spáni dróst landsframleiðsla saman um 7,6 til 11 prósent í fyrra, samkvæmt tölum Eurostat. Muninn á samdrættinum milli landa má sjá á mynd hér að ofan.
Þriðji fjórðungurinn þungur á Íslandi
Ef þróun landsframleiðslu er skoðuð á milli ársfjórðunga kemur Ísland ágætlega vel út í samanburði við Evrópusambandið á fyrri helmingi ársins. Hins vegar var samdrátturinn rúmlega tvöfalt dýpri hérlendis heldur en hjá ESB á þriðja fjórðungi ársins, þ.e. frá júlí og út september.
Munurinn sést á myndinni hér að ofan, þar sem ársfjórðungstölur um landsframleiðslu innan ESB eru bornar saman við sambærilegar tölur hérlendis frá Hagstofu. Hagvöxtur á fjórða ársfjórðungi hérlendis er svo metinn útfrá þjóðhagsspá Hagstofu um hagvöxt á árinu 2020.