Franska ríkið hefur gert ólöglega lítið til þess að standa við skuldbindingar sínar um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda samkvæmt Parísarsamkomulaginu. Þetta er niðurstaða dómstóls í París, en þar var í morgun kveðinn upp dómur í máli sem hefur vakið mikla athygli, en um að ræða fyrstu stóru „loftslagsréttarhöldin“ í Frakklandi.
Samkvæmt umfjöllun franska blaðsins Le Monde er um sögulega niðurstöðu að ræða, í máli sem Greenpeace, Oxfam og tvö önnur frjáls félagasamtök höfðuðu gegn franska ríkinu árið 2019 eftir að rúmlega tvær milljónir höfðu fordæmt aðgerðaleysi ríkisins í loftslagsmálum með því að setja nafn sitt á undirskriftalista.
Málið var tekið til aðalmeðferðar í janúar og nú liggur niðurstaðan ljós fyrir. Í frétt frá Associated Press (AP) segir að dómstóllinn í París hafi bæði fallist á að vistkerfi væru að verða fyrir skaða vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum og varpað ábyrgð á franska ríkið.
Stjórnvöldum hefði mistekist að standa við yfirlýst og lögbundin markmið sín í loftslagsmálum á undanförnum árum. Það gengur ekki, að mati dómstólsins.
Í frétt AP segir að Emmanuel Macron Frakklandsforseti hafi verið ötull talsmaður þess að meira sé gert til þess að takast á við loftslagsbreytingar á heimsvísu. Á sama tíma hafi tölusett árleg markmið Frakka um minni losun innanlands ekki náðst og aðgerðum sem miða að því marki að draga frekar úr losun og uppfylla markmið verið velt fram í tímann.
Refsingin: Að gera betur
Niðurstaða dómstólsins var, samkvæmt frétt AP, að það væri til lítils og ætti ekki við að láta franska ríkið greiða einhverjar fésektir eða miskabætur út af málinu, utan einnar táknrænnar evru til félaganna fjögurra sem stóðu að málsókninni.
Þess í stað ætti franska ríkið að einsetja sér að laga þær brotalamir sem hafi leitt til þess að markmið ríkisins um minni losun gróðurhúsalofttegunda hafi ekki náðst.
Ekki er alveg ljóst hvernig þetta mun allt enda, en dómstólinn hefur samkvæmt frétt AP gefið sér tvo mánuði til þess að ákvarða hvaða aðgerðir franska ríkið ætti að taka upp til þess að koma sér inn á rétta braut.
Dómurinn gæti því orðið til þess að breyta loftslagsstefnu landsins. Samtökin sem stóðu að málarekstrinum kalla niðurstöðuna „sögulegan sigur fyrir loftslagið“ og „sigur sannleikans,“ enda hafi frönsk stjórnvöld til þessa neitað fyrir að vera ekki að gera nægilega mikið í loftslagsmálum.