Í frumdrögum að fyrstu lotu Borgarlínu er gert ráð fyrir því að tvö fjölfarin hringtorg í gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins heyri brátt sögunni til og verði leyst af hólmi með ljósagatnamótum.
Þetta er annars vegar hringtorgið mikla sem markar inngang að Vesturbænum á gatnamótum Hringbrautar og Suðurgötu og hins vegar hringtorgið á mótum Suðurlandsbrautar og Skeiðarvogs.
Öll gatnamót í fyrstu lotu Borgarlínunnar verða því ýmist T-gatnamót eða krossgatnamót, en alls er um að ræða 79 gatnamót á þeirri 14,5 kílómetra leið sem fyrsta lota Borgarlínu nær til. Tillögur að þeim öllum eru teiknaðar upp í frumdragaskýrslunni sem kynnt var í gær.
Í umfjöllun um gatnamót í skýrslunni kemur fram að sjaldgæft sé að gatnamót séu útfærð með hringtorgum þar sem almenningssamgöngur í sérrými fari um, þrátt fyrir að dæmi séu til um það, til dæmis í Noregi og Frakklandi.
Á höfuðborgarsvæðinu er lagt til að láta hringtorgin víkja, ekki síst til þess að greiða leið gangandi og hjólandi vegfarenda um umrædd gatnamót, en krossgatnamót með ljósum henta þeim mun betur en hringtorg. Gangandi og hjólandi þurfa ekki að leggja lykkju á leið sína til að komast í gegn, óhað því í hvaða átt á að fara.
Í dag er ekki gert ráð fyrir því að gangandi eða hjólandi fólk fari beinustu í gegnum hringtorgið á Suðurlandsbraut nema að takmörkuðu leyti. Undirgöng ætluð gangandi eru undir götuna þar sem Skeifan mætir Mörkinni.
Þeir sem leggja leið sína gangandi um hringtorgið á mótum Hringbrautar og Suðurgötu finna síðan vel fyrir því að þar eru þeir ekki í forgangi og ekki er hugað að gönguþverunum í allar áttir. Þetta mun breytast, samkvæmt tillögunum sem lagðar hafa verið fram.
Vinstri beygjum sleppt þar sem kostur er
Fleiri gatnamót breytast en eingöngu þau sem verða ekki lengur útfærð með hringtorgum. Í skýrslunni er lagt til að sleppa vinstri beygjum víða, til að þveranir almennrar umferðar yfir sérrými Borgarlínu verði í lágmarki.
Lagt er til að sleppa vinstri beygjum á krossgatnamótum eins og unnt er, en með vinstribeygjubanni verða gatnamótin í raun að tvennum T-gatnamótum. Þessu er ætlað tryggja greiðfærni Borgarlínunnar og fækka svokölluðum bágapunktum, en með því orði er átt við staði þar sem umferðarstraumar skerast. Færri bágapunktar auka umferðaröryggi.
Dæmi um gatnamót þar sem lagt er til að ekki lengur heimilt að beygja til vinstri á bíl er þegar komið verður út úr Faxafeni og inn á Suðurlandsbrautina. Hið sama mun eiga við þegar komið verður akandi út úr bæði Álfheimum og Vegmúla og inn á Suðurlandsbraut. Vinstri beygja af Suðurlandsbraut, yfir sérrýmið og inn í Lágmúla verður heldur ekki möguleg, samkvæmt þessum fyrstu tillögum.
Það sama er uppi á teningnum á gatnamótum Bankastrætis og Lækjargötu, en ekki er gert ráð fyrir að bílar geti beygt til vinstri þegar niður í Lækjargötu er komið.
Í umfjöllun um umferðaröryggi í skýrslunni segir að þar sem vinstri beygjur verði ekki lengur mögulegar muni hluti bílaumferðar finna sér nýjar leiðir og leita í nærliggjandi götur. Því sé mikilvægt að huga að umferðaröryggi í þeim líka.
Kenna þurfi Íslendingum að nálgast borgarlínubrautirnar
Í umfjöllun í skýrslunni segir einnig að Íslendingar þekki sérreinar fyrir almenningssamgöngur sem séu úti í jaðri gatna en ekki borgarlínubrautir og -reinar sem verði fyrir miðju. Því sé mikilvægt að kynna vel fyrir fólki hvernig Borgarlínan muni virka.
Reynslan sýni til dæmis að óvönum vegfarendum geti fundist ruglandi að ekið sé í báðar áttir á miðlægri borgarlínubraut, þegar þeir þvera þær.