Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir það ánægjulegt að heilbrigðisstjórnvöld hafi undirritað samning um kaup á bóluefni lyfjaframleiðandans CureVac gegn COVID-19 sem dugir fyrir um 90.000 einstaklinga. Þetta kom fram í máli hennar undir liðnum störf þingsins á Alþingi í vikunni.
Segir á vef Stjórnarráðsins að vonir standi til að afhending bóluefnisins geti hafist á öðrum fjórðungi þessa árs, að undangengnu mati Lyfjastofnunar Evrópu og útgáfu markaðsleyfis en bóluefnið er nú í fasa III í prófunum.
„Það sem mér fannst sérstaklega ánægjulegt í þeirri frétt var að samið var um kaup á bóluefni fyrir 90.000 manns. Hví er það sem ég nefni þessa tölu, sem mér finnst vera svolítil lykiltala í öllum þessum málum? Ég kom inn á það í umræðu hér við hæstvirtan heilbrigðisráðherra síðast í desember – eða hvort það var núna í janúar – þegar ég spurði hæstvirtan heilbrigðisráðherra af hverju ekki hefði verið samið við alla bóluefnaframleiðendur um nákvæmlega að kaupa að minnsta kosti skammta fyrir 90.000 manns, vegna þess að það er sá fjöldi manna hér á Íslandi sem mér sýnist af lista og flokkun heilbrigðisráðuneytisins og heilbrigðisyfirvalda vera sá fjöldi landsmanna sem við myndum telja að væri brýnt að fengi bóluefni,“ sagði þingmaðurinn.
Varar við umræðu um siðferðislegar spurningar
Telur Sigríður að mikið ríði á að að tryggja bóluefni fyrir þennan flokk svo hægt verði að koma öllu aftur í gang hér á landi; efnahagslífi og eðlilegu lífi.
Í þessu sambandi vildi hún jafnframt nefna, „af því að ég heyri að sú umræða er að koma upp hvort það geti verið siðferðislega réttlætanlegt að land eins og Ísland klári sínar bólusetningar á undan öðrum, eða Evrópulöndin eða hin vestrænu ríki, að ég vara við þeirri umræðu vegna þess að það ríður mjög á, einkum og sér í lagi fyrir þróunarríkin, að Vesturlönd klári bólusetningar og komi efnahagslífinu á fullt skrið, vegna þess að afleiðingar þessara lokana á Vesturlöndum eru orðnar geigvænlegar einmitt í þróunarlöndunum.“