Umhverfisráðherra Danmerkur hefur tryggt pólitískt samkomulag sem felur í sér að búin verður til eyja í Norðursjó, um 80 kílómetrum undan ströndum landsins. Um stærstu fjárfestingu í sögu Danmerkur er að ræða. Framkvæmdin mun kosta að minnsta kosti 210 milljarða danskra króna – um fimm sinnum meira en kostaði að reisa Stórabeltisbrúna.
Á eyjunni og í sjónum umhverfis hana verður rekinn risastór orkugarður með hundruðum vindmylla. Myllurnar verða óvenju stórar eða um 260 metrar á hæð. Orkueyjan mun verða til þess að Danir geta uppfyllt markmið sín í loftslagsmálum. Þá stendur einnig til að flytja rafmagnið og eldsneytið sem framleitt verður á eyjunni út til annarra landa.
Umhverfisráðherrann segir að með samkomulaginu hafi verið lagður grunnur að orkuskiptunum – ekki aðeins Dönum til heilla heldur einnig Evrópu og í raun heimsbyggðinni allri. „Það er mikilvægt að Danmörk sé land nýsköpunar,“ sagði ráðherrann Dan Jørgensen, er hann kynnti áætlanirnar á blaðamannafundi í vikunni. „Aðeins með því að hvetja aðra í því að þróa grænar lausnir sem þeir geta nýtt getum við raunverulega tekist á við loftslagsbreytingar.“
Gæti framleitt rafmagn fyrir 10 milljónir heimila í Evrópu
Eyjan verður í fyrsta áfanga að minnsta kosti 120 þúsund fermetrar að stærð – jafnstór og um átján fótboltavellir. Vindmyllurnar verða á hafi úti en á eyjunni verða m.a. tengi- og dreifivirki. Er á stefnuskránni að í fyrstu verði framleitt rafmagn sem dugar fyrir um þrjár milljónir heimila en að orkugarðurinn verði svo stækkaður og geti í framtíðinni framleitt rafmagn fyrir um tíu milljónir heimila. Áður en af því yrði þyrfti að stækka eyjuna verulega og myndi hún þá jafnast á við 64 fótboltavelli. Á eyjunni á m.a. nýta nýjustu tækni og framleiða eldsneyti fyrir skip og flugvélar framtíðarinnar, t.d. vetni.
Orkufyrirtækið Ørsted, sem er að hluta í eigu danska ríkisins og er leiðandi í rekstri vindorkugarða á hafi úti, hefur gagnrýnt þessar fyrirætlanir og óttast að tilbúin eyja muni ekki falla vel í kramið hjá Dönum. Auk þess telur fyrirtækið kostnaðinn of stóran bita að kyngja. Þá minnir fyrirtækið á að til að framleiða vetni þurfi að hafa góðan aðgang að miklu magni af fersku vatni. Ørsted segist hafa lagt til að í stað tilbúinnar eyju verði notast við palla sem auki sveigjanleikann. Á þessa gagnrýni hafi stjórnvöld ekki hlustað.
Í frétt Berlinske um málið segir að eyjan verði flokkuð sem grunninnviðir og verði því í meirihlutaeigu ríkisins. Nokkrir danskir fjárfestingarsjóðir hafa þegar sýnt áhuga á verkefninu sem þeir kalla Vindeyju.