Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis og þingmaður VG, segir að ríkisstjórnarsamstarf VG og Sjálfstæðisflokksins sé ekki endilega eitthvað sem menn ættu að horfa á til langrar framtíðar þegar hann er spurður út í það hver sé draumaríkisstjórn VG. „Það getur vel verið að það sé nauðsynlegt að leyfa stjórnmálunum svolítið að þroskast og takast á með hefðbundnari hætti, að minnsta kosti inn á milli, þannig að samstæðari flokkar, hugmyndafræðilega séð, myndu vinna saman í annað hvort minnihluta eða meirihluta.“
Þetta segir Steingrímur í ítarlegu viðtali við Kjarnann sem birtist um helgina.
Telur hann enn fremur að öllum sé hollt að velta fyrir sér því sem kallað er á skandinavísku „konsensus“-stjórnmál. Hann segist alltaf hafa verið hallur undir að það væri að mörgu leyti gott fyrir samfélög að stjórnmálin virkuðu sem samstöðustjórnmál. Það þýði að menn geri málamiðlanir.
Nú hefur þú aldeilis tekist á við aðra í stjórnmálum.
„Ég hef ekkert verið feiminn við það og það eiga menn líka að gera. Það er hluti af þessu og svo tefla menn fram mynduglega, og af hörku, sínum áherslum en þeir eiga að sjálfsögðu að gera það með rökum – og lúta svo lýðræðislegum niðurstöðum. Það er mjög mikilvægt að menn gleymi því aldrei, að það er lýðræðismeirihlutinn sem á að ráða niðurstöðunum í hverju máli og ef menn skrifa upp á lýðræðið á annað borð þá verða þeir að meina það. Ekki bara þegar hentar þeim. Stundum verða menn að sætta sig við það að lenda í minnihluta og taka því.“
Hefði ekkert á móti því að hér myndaðist sterk minnihlutastjórn
Steingrímur veltir því fyrir sér hvernig stjórnmálin muni þróast. Hvort hreinni línur muni myndast þannig að hægt verði að mynda sterka ríkisstjórn meira á annan hvorn vænginn. Væntanlega verði einhver miðlæg öfl með í því. „Síðan hefði ég ekkert persónulega á móti því ef hér myndaðist það sem kalla mætti sterka minnihlutastjórn. Það er að segja vel mannaða og öfluga stjórn þó að ekki væru allir flokkarnir með í ríkisstjórninni sem væru í hennar baklandi. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það gæti verið hollt, sérstaklega fyrir þingræðið. Það er almenn kenning að tímabil með minnihlutastjórnum styrki þjóðþingið því þá þurfa menn meira að semja um sín mál.“
Telur hann mikilvægt að þingið sé sterkt. „Þingið er kjarninn í lýðræðiskerfinu. Fulltrúasamkoma.“ Telur Steingrímur að samvinna með minnihlutastjórn myndi ýta stjórnmálunum í átt til samræðustjórnmála.