Seðlabankinn hefur selt að andvirði 120 milljarða króna í erlendum gjaldeyri á síðustu sjö mánuðum og hefur gjaldeyrisforði bankans minnkað um fimmtung á sama tíma. Gjaldeyrissala bankans á þessu tímabili er sú mesta sem hefur átt sér stað á þessarri öld.
Þetta kemur fram í uppfærðum hagtölum frá Seðlabankanum sem birtust á heimasíðu hans í gær. Samkvæmt þeim seldi bankinn gjaldeyri fyrir um 14,6 milljörðum króna í janúar og voru þau viðskipti tæpur helmingur allra viðskipta á gjaldeyrismarkaði þann mánuðinn.
Inngrip og reglubundin sala
Samkvæmt síðasta hefti Peningamála er þessi mikla sala bæði vegna gjaldeyrisinngripa Seðlabankans og reglubundinnar sölu hans á gjaldeyri.
Í fyrrahaust hóf Seðlabankinn reglubundna gjaldeyrissölu í þeim tilgangi að auka dýpt gjaldeyrismarkaðarins og bæta verðmyndum. Á síðustu fjórum mánuðum hefur reglubundna gjaldeyrissalan numið um 60 til 66 milljónum evra á mánuði, eða um 9 til 11 milljörðum króna.
Til viðbótar við þessa sölu hefur bankinn beitt sérstökum inngripum á gjaldeyrismarkaði, en Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði á vaxtaákvarðanafundi 18. nóvember að það hafi verið gert til að halda gengi krónunnar stöðugu. Þegar slík inngrip fela í sér sölu gjaldeyris styrkja þau gengi krónunnar og geta komið í veg fyrir gjaldeyrisflótta þegar krónan hefur veikst snöggt.
Skipting gjaldeyrissölu Seðlabankans eftir tegundum má sjá á mynd hér að ofan, þar sem gert er ráð fyrir að öll sala sem var ekki regluleg er vegna inngripa á gjaldeyrismarkaði. Þar sést að reglubundin sala Seðlabankans hefur verið stór hluti af gjaldeyrissölu hans á markaði síðustu mánuðina. Seðlabankinn hefur hins vegar minna þurft að grípa inn á gjaldeyrismarkaði á sama tíma, ef miðað er við október í fyrra.
20 prósenta minnkun
Í júlí síðastliðnum nam gjaldeyrisforði Seðlabankans rúmri billjón króna, eða þúsund milljörðum. Í janúar hafði forðinn hins vegar lækkað um 20 prósent og stóð virði hans í 805 milljörðum íslenskra króna. Meirihluti þessarar minnkunar er tilkominn vegna umfangsmikillar gjaldeyrissölu bankans, sem seldi á sama tíma að andvirði 120 milljarða af gjaldeyri, en einnig hefur forðinn minnkað sökum styrkingar krónunnar, sem gerir eignir í öðrum gjaldmiðlum verðminni. Gengi krónunnar á tímabilinu hefur styrkst um 7 prósent á tímabilinu, en með því minnkaði forðinn um uþb 70 milljarða.
Sögulega mikið magn
Sala Seðlabankans á gjaldeyri á síðustu mánuðum er algjört einsdæmi, ef litið er aftur til síðustu 20 ára. Frá því í júlí hefur salan numið um 19 milljörðum króna að meðaltali á hverjum mánuði og er það langhæsta sjö mánaða meðaltal af gjaldeyrissölu sem mælst hefur á þessari öld. Eina tímabilið sem kemst næst slíkri sölu voru fyrstu sjö mánuðirnir eftir fjármálahrunið í október árið 2008, en þá seldi Seðlabankinn að meðaltali virði 8 milljarða króna í hverjum mánuði.