Um fjórðungur launafólks á erfitt með að láta enda ná saman og fimmtungur þess getur ekki mætt óvæntum útgjöldum. Þeir sem eru atvinnulausir eiga erfiðast með að láta enda ná sama og fleiri í hópi þeirra hafa þegið matar- eða fjárhagsaðstoð og líða efnislegan skort en í öðrum hópum.
Fjárhagsstaða innflytjenda er verri en þeirra sem teljast til innfæddra Íslendinga. Þeir eiga erfiðara með að láta enda ná saman, líða frekar efnislegan skort en innfæddir og hafa þegið matar- og/eða fjárhagsaðstoð í meira mæli.
Þetta kemur fram í niðurstöðu könnunar sem lögð var fyrir félaga í aðildarfélögum Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og BSRB í nóvember og desember 2020 þar sem staða launafólks var könnuð. Könnunin var gerð af Vörðu, rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins, sem ASÍ og BSB settu á fót í fyrra.
Kreppan bitnar verr á innflytjendum
Alls voru 51.367 erlendir ríkisborgarar skráðir á Íslandi í byrjun desember 2020. Á sama tíma mældist atvinnuleysi á meðal erlendra ríkisborgara um 24 prósent á meðan að almennt atvinnuleysi í landinu var 10,7 prósent. Rúmlega 40 prósent allra sem voru atvinnulausir að öllu leyti voru því erlendir ríkisborgarar.
Niðurstöður könnunarinnar sýna að mun færri innflytjendur búa í eigin húsbæði en innfæddir Íslendingar. Hjá innflytjendum er hlutfallið 34,9 prósent en á meðal innfæddra er það 77,4 prósent. Það þýðir óhjákvæmilega að stærri hluti innflytjenda (49,3 prósent) sé á almennum leigumarkaði en innfæddir Íslendingar, þar sem hlutfallið er 11,1 prósent.
Andlegt heilsufar innflytjenda mældist verra en innfæddra en líkamlegt heilsufar þeirra betra. Þá sýndi könnunin að atvinnulausir innflytjendur sýni almennt meiri virkni og sveigjanleika en innfæddir og að það eigi sérstaklega við atvinnulausar konur.
Andleg heilsa víða slæm
Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar er andleg og líkamleg heilsa atvinnulausra verri en annarra og þeir eru líklegri til að hafa neitað sér um heilbrigðisþjónustu.
Alls mældist andleg heilsa 40,5 prósent atvinnulausra slæm en 21,4 prósent alls launafólks. þá sögðust 15,6 prósent atvinnulausra líkamlegt heilsufar sitt slæmt og 54,6 prósent þeirra sögðust hafa neitað sér um heilbrigðisþjónustu.
Andleg heilsa ungs fólks mældist líka á alvarlegum slóðum, en 41,6 prósent aðspurðra sögðu hana vera slæma. Til samanburðar sögðust 21,4 prósent þeirra sem voru eldri að þeir teldu andlega heilsu sína slæma. Ungt fólk var líka mun líklegra til að hafa neitað sér um heilbrigðisþjónustu (58,9 prósent) á síðustu sex mánuðum en þeir sem eldri voru (33,8 prósent).