Keldur vilja vera áfram að Keldum og fá hlutdeild í söluandvirði landsins

Í upphafi mánaðar lagði Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum fram þrjár kröfur til mennta- og menningarmálaráðherra. Stofnunin vill vera áfram að Keldum, eiga samráð um skipulagningu landsins og fá hlutdeild í söluágóða þess.

Tilraunastöðin tók til starfa að Keldum í botni Grafarvogs árið 1948. Til stendur að selja landið og nýta ágóðann af sölunni til samgöngumála. Tilraunastöðin krefst samráðs um skipulag og hlutdeildar í ágóðanum af sölunni.
Tilraunastöðin tók til starfa að Keldum í botni Grafarvogs árið 1948. Til stendur að selja landið og nýta ágóðann af sölunni til samgöngumála. Tilraunastöðin krefst samráðs um skipulag og hlutdeildar í ágóðanum af sölunni.
Auglýsing

Framtíð Keldna, Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði er í Keldnalandinu, þar sem stofnunin hefur verið staðsett allt frá stofnun árið 1948. Þetta segir Sigurður Ingvarsson, forstöðumaður stofnunarinnar og prófessor við læknadeild HÍ, að hafi verið niðurstaðan úr nýlegri stefnumótunarvinnu sem ráðist var í hjá stofnuninni og allir starfsmenn Keldna tóku þátt í, auk ytri ráðgjafa.

Sigurður segir einnig, í samtali við Kjarnann, að háskólastofnunin geri kröfu um það að fá að vera aðili að öllum viðræðum sem lúta að framtíðarskipulagi á svæðinu og að ábati af sölu landsins renni að hluta til uppbyggingarstarfs að Keldum, bæði hvað varðar húsakost og tæki. 

Ljóst er á forstöðumanninum að Keldnafólk telur að gengið hafi verið fram hjá sér í þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið um landið á síðustu misserum.  Í erindi sem Sigurður sendi á Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra í upphafi þessa mánaðar er þessari skoðun og kröfum háskólastofnunarinnar komið formlega á framfæri. 

„Óboðlegt“ samráðsleysi við stofnunina

Sigurður segir í erindinu að honum þyki „óboðlegt“ að Tilraunastöðinni hafi ekki verið gefinn kostur á því að koma að lagasetningu sem snerti framtíð Keldnalandsins og umræðu um málið í fyrra og hvetur mennta- og menningarmála til þess að verja hagsmuni stofnunarinnar.

Sigurður Ingvarsson forstöðumaður Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Mynd: Af vef Háskóla Íslands

Í samtali við Kjarnann útskýrir Sigurður að þegar opinbera hlutafélagið Betri samgöngur var stofnað síðasta sumar hafi málið fengið hálfgerða „flýtimeðferð“ hjá stjórnvöldum og ekki komið inn á samráðsgáttina. „Við höfum ekki haft neina aðkomu að þessari ráðstöfun Keldnalandsins og þessari lagasetningu og erum að gera athugasemdir svona eftirá. Það hefur verið gengið framhjá okkur,“ segir Sigurður.

Betri samgöngur ohf. hefur samkvæmt stofnsamþykktum félagsins það hlutverk að gera eins mikil verðmæti og hægt er úr landi ríkisins að Keldum og samkvæmt samningi við fjármála- og efnahagsráðuneytið á allur ábati af þróun þess og sölu að renna óskertur til samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er á skjön við þær kröfur sem Tilraunastöðin gerir til ráðherra.

Bréf frá 1983 um forræði og forsjá landsins

Í erindi sínu vísar Sigurður til bréfs sem Tilraunastöðinni barst 26. maí 1983 frá Ingvari Gíslasyni, þáverandi menntamálaráðherra Framsóknarflokksins. Ráðherra fól þá Tilraunastöðinni umsjón og forræði með landinu í eigu ríkisins að Keldum, nema því landsvæði sem er á Keldnaholti utan um rannsóknarstofnanir atvinnuveganna. 

Auglýsing

Það ár hafði náðst svokallað Keldnasamkomulag um skiptingu landsins á milli ríkisins og Reykjavíkurborgar, eftir áralangt þref.

Tilraunastöðin geti vel starfað í blandaðri byggð

Í samtali við Kjarnann segir Sigurður að hann sjái ekkert því til fyrirstöðu að Tilraunastöðin starfi áfram að Keldum þrátt fyrir að þar byggist upp einhverskonar blönduð byggð, íbúabyggð í bland við atvinnustarfsemi, eins og talað er um að stefnt sé að. Til framtíðar er litið til þess að borgarlínuleið gangi í gegnum svæðið. 

Borgarlínan á að ganga í gegnum Keldnalandið í framtíðinni. Mynd: Úr frumdragaskýrslu 1. lotu Borgarlínu.

„Við sjáum nú ekki að við þurfum að fara úr Keldnalandi út af því,“ segir Sigurður. „En við viljum að þetta sé skipulagt með þarfir Tilraunastöðvarinnar í huga.“

Keldur starfa í húsakynnum sem eru um 5.000 fermetrar og húsakynnin eru mjög sérhæfð. „Hérna er til dæmis öryggisrannsóknarstofa, fullkomnasta öryggisrannsóknarstofan á landinu og aðrar rannsóknarstofur með sérhæfðum útbúnaði og hérna er krufningshús og tilraunadýraaðstaða og svo er aðstaða fyrir dýrahald hér bæði utan- og innandýra,“ segir Sigurður.

Sigurður segir að það sé heilmikið pláss sem fari undir bæði hross og kindur og beit á svæðinu og það sé einna helst það sem ekki geti þrifist innan blandaðrar byggðar til framtíðar.  „Það gæti verið að við þyrftum að hafa annars staðar starfsstöð undir dýrahald stærri dýra,“ segir forstöðumaðurinn, en telur það þó ekki vandkvæðum bundið.

Húsakosturinn að vissu leyti barn síns tíma

Hann segir að Keldur hafi þó þörf á því að uppfæra tækjakostinn og viðhalda hentugu húsnæði á svæðinu til framtíðar. „Elstu húsin hérna eru orðin orðin 73 ára gömul,“ en um er að ræða rannsóknarhús og „skipulag þeirra er kannski barn síns tíma,“ segir Sigurður og bætir við að menn myndu vilja sjá uppbyggingu að Keldum til að bæta flæðið í rannsóknarumhverfinu. 

Sigurður segir að stofnunin hafi séð fyrir að fá einhvern ágóða af sölu Keldnalandsins til þess að þróa húsa- og tækjakost sinn frekar og notið „afskiptalauss velvilja“ af hálfu menntamálaráðuneytisins.

„En við erum ekki með neitt í hendi með söluandvirði landsins. Það er talað um að þetta renni til samgangna hérna, Borgarlínu og fleira, og það er það sem við höfðum viljað sjá renna eitthvað hérna til uppbyggingarstarfsins hjá okkur. En það er ekkert komið á fjárlög eða neitt, það gerist ekkert fyrr en eitthvað fer á fjárlög,“ segir Sigurður.

Tæki mörg ár að skipuleggja starfið á nýjum stað

„Ég veit svo sem ekki hvenær á að fara að byggja hérna en það líða árin og það hlýtur að fara að styttast í það,“ segir Sigurður. Hann segir þó að honum hafi skilist á fulltrúum Reykjavíkurborgar til þessa að lítið myndi gerast í Keldnalandinu fram til ársins 2030.

„En það þarf að huga að framtíðinni. Svona sérhæfð starfsemi eins og okkar, ef það á að byggja upp frá einhverjum grunni þá tekur allmörg ár að fara í gegnum allt skipulag í því.“

Sigurður segir aðspurður að engar nýlegar kostnaðaráætlun liggi fyrir um hvað það gæti kostað að finna Tilraunastöðinni nýjan stað. Kostnaðaráætlun hafi verið gerð á árunum fyrir hrun um mögulega uppbyggingu stofnunarinnar á háskólasvæðinu í Vatnsmýri og hún hafi hljóðað upp á um það bil þrjá milljarða króna. Það séu þó orðnar 13 ára gamlar tölur.

Kjarninn hefur beint fyrirspurn til Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra um málið, meðal annars um hvort mögulegt sé að einhver hluti ágóðans af fyrirhugaðri sölu og þróun landsins renni til uppbyggingar á húsakosti og tækjum stofnunarinnar.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Davíð Helgason, einn stofnenda og fyrrum forstjóri Unity.
Segir Ísland geta orðið „einhvers konar tilraunasetur fyrir framtíðina“
Frumkvöðullinn og milljarðamæringurinn Davíð Helgason flytur til Íslands í sumar og ætlar að fjárfesta í fyrirtækjunum sem vinna gegn loftslagsvandanum. Að hans mati er margt sem gerir landið að góðum fjárfestingarkosti.
Kjarninn 18. maí 2021
Palestínumennirnir fimm fyrir utan húsnæði Útlendingastofnunar í Hafnarfirði í dag.
„Við viljum frekar deyja á götunni á Íslandi en að fara aftur til Grikklands“
„Íslensk yfirvöld hlusta ekkert á okkur. Þó að þau viti hvernig ástandið er í okkar heimalandi og þær áhyggjur sem við höfum. Ég meina, húsin sem við bjuggum í hafa sum verið jöfnuð við jörðu.“ Þetta segir Palestínumaður sem er lentur á götunni á Íslandi.
Kjarninn 18. maí 2021
Fasteignaverð hækkar meira með hverjum mánuðinum sem líður, þar sem eftirspurn er mikil og minna er um nýbyggingar.
Ekki meiri hækkun síðan árið 2017
Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 13,7 prósent í apríl á ársgrundvelli, miðað við vísitölu Þjóðskrár. Vísitalan hefur ekki hækkað jafnmikið milli ára síðan í desember 2017.
Kjarninn 18. maí 2021
Þröstur Ólafsson
Var þanþolið rofið?
Kjarninn 18. maí 2021
„Þegar mikil eftirspurn er eftir húsnæði getur fyrirvari um ástandsskoðun fasteignar talist kauptilboði til frádráttar,“ segir í greinargerð með þingsályktunartillögunni.
Ástandsskýrslur fylgi öllum seldum fasteignum
Nýsamþykkt þingsályktunartillaga felur ráðherra að móta frumvarp um ástandsskýrslur fasteigna. Slíkum skýrslum er ætlað að auka traust í fasteignaviðskiptum en ábyrgð vegna galla sem ekki koma fram í ástandsskýrslum mun falla á matsaðila.
Kjarninn 18. maí 2021
Allir hljóta að hafa skoðun á vegferð Ísraelsmanna að mati Hönnu Katrínar Friðriksson þingmanns Viðreisnar.
„Við Íslendingar höfum sterka rödd á alþjóðavettvangi“
Íslensk stjórnvöld þurfa að láta í sér heyra og hvetja aðra til að gera slíkt hið sama vegna átaka milli Ísraels og Palestínu að mati þingmanna Viðreisnar og Framsóknarflokks. Þó svo að íslenska þjóðin sé fámenn hafi hún sterka rödd og hana þurfi að nota.
Kjarninn 18. maí 2021
Samkvæmt ASÍ og BSRB er skuldasöfnun ríkisins ekki áhyggjuefni þegar vextir eru lágir
Gagnrýna „afkomubætandi ráðstafanir“ og vilja breyta fjármálareglum
Sérfræðingahópur á vegum ASÍ og BSRB varar stjórnvöld við að beita niðurskurði í yfirstandandi kreppu og segir að fjármálareglur hins opinbera þurfi að vera sveigjanlegri í nýrri skýrslu um efnahagsleg áhrif faraldursins.
Kjarninn 18. maí 2021
Græni miðinn er aftur kominn upp á gafl Hafnarborgar.
Listaverk sem fjarlægt var af bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði komið upp á nýjan leik
Listaverk þeirra Libiu Castro og Ólafs Ólafssonar var fjarlægt af gafli Hafnarborgar fyrr í þessum mánuði að beiðni bæjaryfirvalda. Listaverkið er nú aftur komið upp en líklega hafa bæjaryfirvöld látið undan þrýstingi fagfélaga að mati listamannanna.
Kjarninn 18. maí 2021
Meira úr sama flokkiInnlent