Andrés Ingi Jónsson alþingismaður hefur ákveðið að ganga til liðs við þingflokk Pírata og mun hann gefa kost á sér í prófkjöri flokksins fyrir næstu kosningar. Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu sem Andrés Ingi sendi frá sér á Facebook-síðu sinni í dag, en tilkynningin barst einnig fjölmiðlum frá þingflokki Pírata.
Andrés Ingi hefur verið þingmaður utan flokka í rúmt ár eftir að hafa sagt sig úr þingflokki Vinstri grænna í lok nóvembermánaðar 2019.
Í stöðuuppfærslu sinni sagðist Andrés vilja vera hluti af „hóp sem er hægt að treysta til að taka djarfar ákvarðanir“ og að hann telji að innan þingflokks Pírata muni hugsjónum hans vera best borgið. Hann mun gefa kost á sér í komandi prófkjöri til að sjá hvort grasrót flokksins treysti honum fyrir áframhaldandi verkefnum eftir næstu kosningar.
Samkvæmt tilkynningunni frá Pírötum samþykkti þingflokkurinn einróma að bjóða Andrés velkominn í hópinn á þingflokksfundi í morgun. Flokkurinn segist hafa átt í góðu samstarfi við hann, flutt saman fjölda þingmála og unnið náið saman í nefndum þingsins. Með tímanum hafi komið í ljós að um sé að ræða náttúrulega bandamenn með margar sameiginlegar áherslur.