Arion banki hagnaðist um 12,5 milljarða króna á árinu 2020 og arðsemi eigin fjár var 6,5 prósent hjá bankanum. Það er undir markmiði hans, sem er tíu prósent arðsemi á eigið fé. Hagnaðurinn er rúmlega ellefu sinnum hagnaður ársins 2019, þegar hann var 1,1 milljarður króna. Hluthafar bankans munu njóta góðs af þessari stöðu. Til stendur að kaupa eigin bréf fyrir 15 milljarða króna og greiða út þrjá milljarða króna í arð. Með því verður 18 milljörðum króna skilað í vasa hluthafa á grundvelli frammistöðu Arion banka á síðasta ári.
Þetta kemur fram í afkomutilkynningu sem birt var í Kauphöll Íslands síðdegis í dag samhliða því að ársreikningur Arion banka fyrir síðasta ár var gerður opinber.
Eiginfjárhlutfall bankans var 27 prósent um nýliðin áramót og hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 var 22,3 prósent þegar tekið hefur verið tillit til áðurnefndrar tillögu stjórnar um arðgreiðslu kaup á eigin bréfum. Heildar eigið fé nam 198 milljörðum króna í árslok 2020, sem er átta milljörðum krónum hærra en það var í árslok 2019. Að meðtöldum arðgreiðslum og þeim fjárhæðum sem nýttar verða í kaup á eigin bréfum jókst eiginfjárgrunnur samstæðunnar um 28 milljarða króna frá árslokum 2019.
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, segir það mjög ánægjulegt tíðindi fyrir bankann að Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hafi samþykkt beiðni bankans um að kaupa til baka eigin bréf fyrir allt að 15 milljarða króna. Þrátt fyrir það, og tillögu um þriggja milljarða króna arðgreiðslu, sé fjárhagslegur styrkur bankans með því besta sem gerist í Evrópu og mikil útlánageta sé fyrir hendi.
Hann segir að merki séu um að umsvif í efnahagslífinu séu að aukast í kjölfar þess að dregið hefur úr óvissu í umhverfinu. „Mikilvægt er að viðspyrnan verði kröftug svo að íslenska hagkerfið nái fljótt fyrri styrk. Arion banki er í góðri stöðu til að leggja sín lóð á vogarskálarnar til að svo megi verða, í góðu samstarfi við sinn öfluga hóp viðskiptavina.“
Breytingar á hluthafahóp
Töluverð breyting hefur orðið á hluthafahóp Arion banka á síðustu mánuðum. Frá því í lok september í fyrra, fyrir fjórum mánuðum síðan, hafa tveir stærstu eigendur bankans á undanförnum árum selt samtals 13,92 prósent hlut í honum. Um er að ræða vogunarsjóðina Taconic Capital Advisors og Sculptor Capital Management. Markaðsvirði þess hlutar sem þeir hafa selt, að mestu á allra síðustu vikum, er yfir 23 milljarðar króna.
Fleiri vogunarsjóðir, sem komu inn í eigendahóp Arion banka eftir að hafa tilheyrt kröfuhafahópi Kaupþings,hafa líka verið að selja sig niður að undanförnum.
Innlendir fagfjárfestar hafa keypt stærstan hluta þess sem vogunarsjóðirnir hafa selt. Þeir eru að mestu íslenskir lífeyrissjóðir. Á síðustu fjórum mánuðum hafa þrír stærstu lífeyrissjóðir landsins: Gildi, Lífeyrissjóður verzlunarmanna og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) bætt við sig samanlagt 4,61 prósent hlut í Arion banka.
Fleiri lífeyrissjóðir: Stapi, Birta, Frjálsi lífeyrissjóðurinn og Lífsverk hafa allir líka bætt við sig í Arion banka á síðustu mánuðum.
Samanlagður eignarhluti þeirra lífeyrissjóða sem birtast á lista yfir 20 stærstu eigendur bankans var 22,42 prósent í byrjun síðasta árs. Í lok september 2020 hafði hann aukist í 29,17 prósent og síðustu fjóra mánuði hefur hann farið upp í 36,29 prósent. Á rúmu ári hefur hlutur sjóðanna því stækkað um rúmlega 60 prósent. Það þýðir að fjárfesting þeirra átta lífeyrissjóða sem eru á meðal 20 stærstu hluthafa í Arion banka er nú um 60 milljarða króna virði.
Á meðal annarra sem keyptu hlutabréf í Arion banka af Taconic Capitalnýverið eru íslensku fjárfestingafélögin Mótás, Hvalur, Stálskip og Sjávarsýn. Hvalur sem átti fyrir 1,5 prósent hlut, stækkaði sig upp í 2,13 prósent með því að kaupa bréf fyrir um milljarð króna. Mótás, sem nýverið keypti sig inn í Stoðir, stærsta innlenda einkafjárfestinn í Arion banka, keypti 0,6 prósent hlut fyrir tæplega 800 milljónir króna. Fjárfestingafélagið Stálskip, í eigu eigu hjónanna Guðrúnar Lárusdóttur og Ágústs Sigurðssonar og þriggja barna þeirra, keypti fyrir 300 milljónir króna og Sjávarsýn, í eigu Bjarna Ármannssonar, forstjóra Iceland Seafood og fyrrverandi bankastjóra Glitnis, keypti fyrir 200 milljónir króna.
Þorri þess sem út af stendur hefur verið keypt af sjóð- og eignastýringarfyrirtækjum banka eða einfaldlega í nafni annarra banka.