Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis og þingmaður VG, segir að það væri ekki endilega ófyrirsjáanleg þróun ef Sósíalistaflokkurinn næði inn á þing í næstu alþingiskosningum þegar hann er spurður út í hvernig honum lítist á nýliðann á vinstri vængnum, Sósíalistaflokkinn.
Þetta kemur fram í ítalegu viðtali við Steingrím sem birtist um síðustu helgi á Kjarnanum.
Hann bendir á að á hinum Norðurlöndunum séu ýmsir valkostir til vinstri. „Ég tel auðvitað að Vinstrihreyfingin grænt framboð sé þessi sósíalíski flokkur. Ef það er ekki nógu róttækt fyrir menn þá það. Þá bara útbúa menn sinn málflutning miðað við það að þeir séu enn lengra til vinstri og svo ráða kjósendur niðurstöðunni.“
Steingrímur telur jafnframt að líklegast til árangurs sé að sameinast í breiðum, sterkum, vinstri sinnuðum, grænum, femínískum flokki. „Ég spyr mig að því hvaða efniviður sé í heilsteypta pólitík sem ekki rúmast undir þeim formerkjum. Auðvitað þegar við vorum að stofna Vinstri græn og jafnvel enn þann dag í dag þá voru auðvitað kommúnistar með í hópnum. Það voru hreinir og klárir kommúnistar og mjög róttækt fólk – og það fólk blandaðist bara ágætlega við aðra sem í mesta lagi kölluðu sig sósíalista eða róttæka vinstri menn, verkalýðssinna, femínista og umhverfisverndarsinna.
Dýnamíkin hjá okkur hefur notið góðs af því að við höfum ekki bara verið tvískipt ef svo má að orði komast. Við höfum verið miklu fleira. Ekki einungis til vinstri eða græn heldur líka með femínískan arm og utanríkis- og friðarmálaarm, byggðamálaarm og svo framvegis.“
„Við eigum auðvitað engan einkarétt á því að vera eini róttæki vinstri flokkurinn“
Bendir Steingrímur á að þegar VG varð til hafi virkjast fjöldi félagslega sinnaðs fólks sem ekki hafði tekið þátt í stjórnmálum áður. „Það leystust nefnilega úr læðingi kraftar sem eiginlega voru sterkari en við áttum von á. Heilmikið af fólki mætti til leiks sem hafði ekki lagt stjórnmálunum lið. Félagsvant fólk úr stéttabaráttunni, verkalýðshreyfingunni eða félagasamtökum og mikið af ungu fólki. En við eigum auðvitað engan einkarétt á því að vera eini róttæki vinstri flokkurinn og það er bara lýðræði. Eðli málsins samkvæmt geta menn auðvitað látið á það reyna hvort að stuðningur sé við þá og þeirra hugmyndafræði.“
Sósíalistaflokkurinn sprettur upp úr ákveðnum jarðvegi í kringum búsáhaldabyltinguna og verkalýðshreyfinguna og virðist vera vöntun á ennþá róttækari vinstra afli. Hvað finnst þér um það?
„Ég tel að það fólk sé allt saman velkomið í okkar raðir, það er ekki vandinn í mínum huga. En kannski eru aðstæðurnar núna þegar við erum í ríkisstjórn þannig að þá finnst fólki það eitthvað fjarlægara. Ég á ekki von á öðru en að þeim yrði vel tekið ef þau vildu ganga í okkar raðir og efla okkur og gera okkur þá ennþá róttækari. Valið er auðvitað um það,“ segir Steingrímur.
Sérðu þá ekki róttæknina sem vandamál?
„Nei, alls ekki. Óli kommi og Þorvaldur Þorvaldsson voru til dæmis góðir liðsmenn okkar og voru fyrstu 10 til 15 árin í okkar hreyfingu. Ég man ekki til þess að það hafi skapað nein vandamál. Og þannig hafa menn þá áhrif inn í stærri hóp, getum við sagt, og toga þá hreyfinguna enn meira til vinstri,“ segir hann en bætir því við að auðvitað verði menn að finna út úr þessu sjálfir. Persónur og leikendur skipti alltaf máli og ætli hann síðastur manna að fara að tala úr mönnum kjarkinn hvað það varðar.
„Það er að mörgu leyti spennandi að láta reyna á gæfu sína í svona löguðu. Menn eiga fullan rétt á því og er það hluti af lýðræðinu og þingræðinu. Og ef eitthvað er þá þarf að passa upp á það að þröskuldarnir séu ekki of háir til þess að nýsköpun eigi sér stað innan stjórnmálanna.“
Hann segir að áhugavert verði að sjá hvað gerjist í þessum málum.
Hægt er að lesa viðtalið í heild sinni hér.