Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræddu veiðigjöld í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag í samhengi við það ástand sem nú er uppi vegna COVID-19 faraldurs. Spurði þingmaðurinn ráðherrann hvort til greina kæmi að hækka veiðigjöldin tímabundið og hvort henni fyndist hlutfallið vera eðlilegt.
„Ef einhver hefur velkst í vafa um mikilvægi samneyslunnar og nauðsyn á getu stjórnvalda til að grípa inn í með stórfelldum hætti hefur þeirri óvissu vonandi verið eytt núna í COVID-faraldrinum. Um allan heim hafa stjórnvöld gripið til stórtækra aðgerða til að aðstoða atvinnulíf og einstaklinga með áður óþekktum hætti, líka hér á Íslandi. En þó það hafi verið gert er jafn ljóst að við deilum um áherslurnar,“ sagði Logi.
Telur hann og flokkur hans að of litlu hafi verið varið í að aðstoða tugþúsundir manna sem misst hafa vinnuna og allt of lítil áform um að skapa ný störf. „Nú eru 27.000 manns atvinnulausir og samkvæmt könnun rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins á um helmingur þessa fólks erfitt með að ná endum saman. Þrír hópar skera sig úr; innflytjendur, konur og ungt fólk,“ benti hann á.
Vill athuga forgangsröðina
Logi vék einn fremur að stöðu unga fólksins. „42 prósent segjast búa við slæma andlega heilsu og 60 prósent hafa þurft að neita sér um læknisþjónustu á síðasta hálfa ári. Allar aðvörunarbjöllur klingja, skammtímaáhrifin augljós en því miður langtímaáhrifin líka. Ríkisstjórnin telur sig ekki geta gert meira fyrir þennan hóp en skoðum aðeins forgangsröðunina.“
Benti hann í því sambandi á að á síðasta ári hefði útgerðin greitt sér 4,8 milljarða í veiðigjöld. „Sú tala segir kannski ekki mikið nema þegar við horfum á samhengið. Á sama tíma greiddu sjö eigendur stærstu útgerðarfyrirtækjanna sér margfaldan þann arð á við það sem greitt er í veiðigjöld og innan við 10 prósent af samanlögðum rekstrarhagnaði fyrirtækja.“
Spurði hann því ráðherra hvort hún teldi þetta hlutfall vera eðlilegt og sanngjarnt eða kæmi ef til vill til greina að hækka veiðigjöld, að minnsta kosti tímabundið, í ljósi aðstæðna til að jafna byrðarnar í samfélaginu.
Sammála um mikilvægi samneyslunnar
Katrín svaraði og sagðist geta tekið undir með Loga að það væri mjög mikilvægt að þau skoðuðu sérstaklega hvað þau gætu gert til að koma til móts við þessa hópa. „Ríkisstjórnin hefur staðið fyrir því að atvinnuleysisbætur hafa verið hækkaðar um 35 prósent á kjörtímabilinu einmitt til að mæta atvinnuleitendum. Það er líka mikilvægt að við veltum því fyrir okkur hvað fleira er hægt að gera. Ég minni á að skattbyrði þessa hóps var lækkuð. Og af því að hv. þingmaður nefnir líka ungt fólk þá vil ég minna á hækkun barnabóta sem vissulega kemur sér vel fyrir barnafólk sem flest hvað er ungt að aldri. En við þurfum að taka þetta til skoðunar og ég nefni sérstaklega innflytjendur í þessum hópi sem eru auðvitað langflestir líka í hópi atvinnuleitenda.“
Þá telur Katrín að hún og þingmaðurinn séu sammála um mikilvægi samneyslunnar og um þau markmið að hana eigi að nýta til að jafna kjörin „eins og við höfum verið að gera í þessum málum“.
Hvað varðar veiðigjöldin þá vildi hún minna á að sú breyting sem gerð var á því gjaldi á þessu kjörtímabili hefði verið að afkomutengja það. „Það er rétt að útgerðin skilaði 4,8 milljörðum á nýliðnu ári. Árið 2021 er gert ráð fyrir að sú álagning nemi 7,5 milljörðum sem byggist á afkomu veiða ársins 2019. Hér var ég meðal annars sökuð um að standa fyrir lækkun veiðigjalds og væntanlega verð ég þá núna sögð vera að hækka veiðigjald. Hvorugt á við rök að styðjast. Það sem var gert var að afkomutengja veiðigjaldið. Síðan er hægt að ræða það hvert hlutfallið eigi nákvæmlega að vera. En ég velti því fyrir mér hvort háttvirtur þingmaður sé mér ekki sammála um að það sé eðlilegt að þetta gjald fylgi afkomu fyrirtækjanna þannig að þegar vel árar í sjávarútvegi, eins og gerðist 2019, þá skili það sér inn í ríkissjóð,“ sagði ráðherrann.
Spurði sömu spurningar aftur
Logi kom aftur í pontu og sagði að hann teldi langeðlilegast að réttasta gjaldið fengist með því að láta fyrirtækin bjóða í þessa takmörkuðu auðlind og það ættu þau svo sannarlega að gera.
„Ég spyr hins vegar ráðherra aftur hvort henni finnist í ljósi þessara aðstæðna þetta hlutfall vera sanngjarnt þegar fyrirtækin eru að moka út arði. Við getum ekki búið við það að örfáar fjölskyldur hér í landinu séu að mylja undir sig milljarða fyrir nýtingu á takmörkuðum, sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar á meðan tugþúsundir manna eiga erfitt með að ná endum saman, geta ekki sótt sér læknisþjónustu og börn þeirra munu kannski líða skort sem mun hafa áhrif á þau alla ævi.“
Spurði hann því aftur: „Kemur til greina að hækka veiðigjöldin tímabundið og finnst hæstvirtum ráðherra þetta hlutfall, sem hún vissulega ákvað, vera eðlilegt?“
Sanngjarnar tillögur – Hlutfallið ásættanlegt
Katrín svaraði í annað sinn og sagði að Logi setta þetta í samhengi við aðgerðir til að stuðla að jöfnuði í samfélaginu og allt það sem hún taldi upp í fyrri ræðu stefndi í þá átt.
„Ég nefndi reyndar ekki kostnað í heilbrigðiskerfinu, sem háttvirtur þingmaður kom inn á, en á þessu kjörtímabili mun kostnaður fólks á Íslandi við heilbrigðisþjónustu lækka þannig að við verðum komin á par við önnur Norðurlönd þangað sem hv. þingmaður hefur einmitt viljað beina sinni flugvél þegar hann er spurður um það hvaða samfélagsgerð hann vilji leggja til. Skiptir það máli fyrir þá sem höllustum fæti standa? Ég segi já við því.
Hvað varðar veiðigjöldin, af því að háttvirtur þingmaður vill setja þau í þetta samhengi, þá fannst mér það vera sanngjarnar tillögur sem við samþykktum á þinginu þar sem ákveðið var að leggja til 33 prósent gjald af afkomu fiskveiða samkvæmt útreikningum og nýjustu skattframtölum. Spurningin sem háttvirtur þingmaður setur fram er þessi: Er það sanngjarnt hlutfall? Auðvitað á eftir að koma reynsla á það. Í raun og veru erum við að sjá veiðigjaldið hækka um 56 prósent, væntanlega 2021, af því við erum að afkomutengja það. Mér fannst þetta hlutfall ásættanlegt, enda studdi ég það frumvarp sem lagt var fram fyrir rúmu ári eða svo,“ sagði hún að lokum.