Landsbankinn hagnaðist um 10,5 milljarða króna í fyrra, þrátt fyrir að hafa afskrifað 12 milljarða króna af eignum sínum vegna óvissu um útlán í eigu bankans í kjölfar COVID-19 heimsfaraldursins. Bankaráð bankans mun leggja til að 4,5 milljarða króna arður verði greiddur til hluthafa vegna hagnaðarins.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem fylgdi nýbirtu ársuppgjöri Landsbankans og birtist á vef Kauphallarinnar eftir lokun markaða í dag. Samkvæmt henni nam virðisrýrnun á útlán bankans um 12 milljörðum króna í fyrra, sem er meira en tvöfalt meira heldur en bankinn afskrifaði árið 2019. Bankinn segir að muninn megi rekja til áhrifa heimsfaraldursins, en mikil óvissa ríkir um virði lána í eigu hans.
Minni munur var á milli ára í tekjum bankans af reglulegri starfsemi. Hreinar vaxtatekjur lækkuðu um fjögur prósent, eða úr tæpum 40 milljörðum króna niður í rúma 38 milljarða króna. Hreinar þjónustutekjur hans lækkuðu svo um sjö prósent, eða úr 8,2 milljörðum niður í 7,6 milljarða.
Meiri innlán fjármögnuðu meiri útlán
Líkt og hjá hinum bönkunum jukust útlán bankans töluvert, en aukningin nam 133 milljörðum króna og er aðallega vegna aukinna lána til einstaklinga. Bankinn náði svo að fjármagna þessi auknu útlán að hluta til með aukningu innlána, en þau jukust um 85 milljarða króna á árinu. Hagnaður bankans af hverju útláni minnkaði þó í fyrra, þar sem munurinn á inn- og útlánsvöxtum minnkaði úr 2,8 prósentum í 2,5 prósent.
4,5 milljarðar í arð
Samkvæmt kynningunni mun Bankaráð Landsbankans leggja til við aðalfund þann 24. mars 2021 að greiddur verði arður til hluthafa vegna síðasta árs sem nemur 0,19 krónu á hlut, eða samtals 4,5 milljörðum króna. Arðgreiðslan samsvarar 43% af hagnaði samstæðunnar á árinu 2020. Þar sem 98 prósent bankans eru í eigu ríkisins má því búast við að ríkissjóður geti hagnast um 4,4 milljarða á árinu vegna arðgreiðslunnar.