Rannsókn á mögulegum þætti starfsmanna norska bankans DNB í meintum lögbrotum tengdum starfsemi Samherja, meðal annars í Namibíu, hefur verið felld niður. Þetta kemur fram í tilkynningu frá DNB til norsku kauphallarinnar, en hann er skráður á markað.
Í tilkynningunni segir að rannsókn norsku ríkissaksóknaraembættisins hafi ekki leitt að sér neinar upplýsingar sem þyki tilefni til saksóknar gegn einstaklingum sem starfi hjá bankanum né að hún þyki líkleg til að leiða til sektargreiðslna. þar er haft eftir Thomas Midteide, yfirmanni samskiptamála hjá DNB, að bankinn hafi átt í góðu samstarfi við Økokrim, norsku efnahagsbrotadeildina, frá því að rannsóknin hófst síðla árs 2019, í kjölfar uppljóstrunar Kveiks, Stundarinnar, Wikileaks og Al Jazeera á meintum brotum Samherjasamstæðunnar í tengslum við umsvif hennar í Namibíu. Í þeirri umfjöllun var fjallað um meintar mútugreiðslur, skattasniðgöngu og peningaþvætti.
Kjarninn greindi frá því í fyrrahaust að æðsti yfirmaður Økokrim hafði lýst sig vanhæfan til þess að fjalla um málið vegna fyrri starfa sinna í lögmennsku. Málið var í kjölfarið fært frá efnahagsbrotalögreglunni til ríkissaksóknara.
Hentu Samherja úr viðskiptum
Í umfjöllun Kjarnans um rannsóknina, sem birtist í desember 2020, kom fram að verið væri að rannsaka hvort að DNB hefði tekið þátt í glæpsamlegu athæfi vegna hlutverks hans í því sem „virðist vera mútugreiðslur sem greiddar voru af bankareikningum félaga Samherja hjá DNB,“ samkvæmt því sem fram kemur í bréfi Økokrim sem Kjarninn hefur undir höndum, og er dagsett 29. apríl 2020.
Rannsóknin snéri að uppistöðu að því að komast til botns í því af hverju DNB tilkynnti ekki greiðslur til Tundavala til norska fjármálaeftirlitsins sem grunsamlegrar millifærslur.
DNB, sem er að hluta til í eiga norska ríkisins, lauk viðskiptasambandi sínu við Samherja í lok árs 2019 vegna þess að stjórnendur dótturfélaga sjávarútvegsrisans, sem áttu reikninga í bankanum, svöruðu ekki kröfu bankans um frekari upplýsingar um starfsemi þess, millifærslur sem það framkvæmdi og tengda aðila, með fullnægjandi hætti.