„Öll viðvörunarljós eiga að vera kveikt á hinu pólitíska sviði vegna þessarar þróunar og kúvendingar ríkisstjórnarinnar við fjármögnun skulda ríkissjóðs. Gríðarleg gengisáhætta fylgir erlendum lántökum sem getur haft áhrif á möguleika okkar til að verja velferðarkerfið.“
Þetta skrifar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í stöðuuppfærslu á Facebook sem hún birti í gærkvöldi. Hún segir þar að skýrasta dæmið um gagnleysi sjálfstæðrar myntar eins og íslensku krónunnar komi fram þegar „ekki er unnt að nota hana til að prenta peninga við neyðaraðstæður.“
Í stöðuuppfærslunni fjallar Þorgerður Katrín um fyrirspurn sína til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um erlendar lántökur ríkissjóðs síðdegis í gær en ríkissjóður Íslands gaf út vaxtalaus skuldabréf í evrum að virði 117 milljarða króna, sem jafngildir um fjórum prósentum af landsframleiðslu, í lok janúar.
Segir gjaldmiðlamál „harðkjarna pólitík“
Þorgerður Katrín segir í stöðuuppfærslunni í gærkvöldi að hún hafi haft gaman af því að forsætisráðherra hafi sagt sig, í hneykslunartón, vera í stjórnmálum. „Reyndar útskýrir þetta viðhorf vissulega grunninn fyrir þeirri kyrrstöðustjórn sem formaður VG veitir forstöðu. Í raun er ég henni þó þakklát fyrir þessa fullyrðingu því það er hárrétt; ég er í pólitík. Ekki síst þegar kemur að krónunni og þeirri áhættu sem henni fylgir fyrir heimilin, fyrirtækin og velferðina. Því það er harðkjarna pólitík. Það er stefna Viðreisnar að lífskjör verði hér samkeppnishæf og meiri stöðugleiki verði fyrir bæði heimili og atvinnulíf. Að við byggjum upp fleiri og fjölbreyttari störf til lengri tíma. Að við förum úr sveiflukenndu hagkerfi í stöðugt. En það gerist ekki nema við tengjumst eða tökum upp Evru.“
Viðreisn hafi getað stutt þá stefnu ríkisstjórnar og Seðlabanka Íslands að hafa ætlað að fjármagna halla ríkissjóðs með innlendum lánum á lægstu vöxtum og án gengisáhættu. „Stjórnvöld hafa hins vegar kúvent og ætla að fjármagna hallann með erlendum lánum upp á mörg hundruð milljarða. Skýrasta dæmið um gagnleysi sjálfstæðrar myntar kemur hér fram þegar ekki er unnt að nota hana til að prenta peninga við neyðaraðstæður eins og þær sem við búum núna við. Engin önnur Evrópuþjóð þarf heldur að sætta sig við verðbólgu í miðri kreppu.“
Íhaldsflokkarnir vilji „taka sénsinn á krónunni“
Formaður Viðreisnar telur að forsætisráðherra hafi átt erfitt með að viðurkenna þá „ævintýralegu gengisáhættu“ sem fylgi mörg hundruð milljarða króna erlendu láni sem stjórnvöld hafi ákveðið að taka til að vinna á fjárlagahallanum. „Enn og aftur vilja íhaldsflokkarnir taka sénsinn á krónunni og áhættunni sem henni fylgir. Eða er það tilviljun að stóru fyrirtækin í sjávarútvegi og iðnaði gera upp í erlendri mynt. Meðan að almenningur, heimilin og litlu fyrirtækin sitja uppi með krónuna.
Þessi stefnubreyting eykur einnig áhættuna á því að stjórnvöld freisti þess að halda upp gengi krónunnar eins lengi og verða má, án tillits til framleiðni ferðaþjónustunnar og annarra útflutningsgreina. Við sjáum þetta ekki fyrir enn sem komið er en þetta gæti jafngilt verulegum skattahækkunum.
Þessu til viðbótar hefur greiningardeild Landsbankans varað við að þær opinberu innviðafjárfestingar sem ríkisstjórnin hefur ítrekað boðað (einhverjir voru jú blaðamannafundirnir) hafi alls ekki staðist og kunni að koma samtímis því þegar atvinnuvegafjárfesting tekur við sér. Það er gamalkunnugur og spennuþrunginn kokteill sem getur valdið þenslu í hagkerfinu með tilheyrandi afleiðingum.“