Nýsköpunarfyrirtækin KATLA, Garden, Lockwood Publishing og Thunderful Group, sem eru öll rekin af Íslendingum sem búa erlendis, fengu samtals hlutafjáraukningu að andvirði rúmlega 15 milljarða króna í fyrra. Á meðal fjárfesta var íslenski framtakssjóðurinn Crowberry Capital og kínverski tæknirisinn Tencent. Þetta kemur fram í frétt sem birtist á vef Northstack í gær.
KATLA fékk 168 milljónir
Fyrir rúmu ári síðan tilkynnti Áslaug Magnúsdóttir, meðstofnandi og fyrrum framkvæmdastjóri tískuvefverslunarinnar Moda Operandi, útgáfu nýs fatamerkis undir nafninu KATLA. Samkvæmt heimasíðu fyrirtækisins sérhæfir það sig í framleiðslu á sjálfbærum og umhverfisvænum kvenfatnaði. Crowberry Capital tryggði fatamerkinu 1,3 milljónir Bandaríkjadala, sem jafngildir 168 milljónir íslenskra króna, í fyrstu fjármögnun hennar síðastliðinn desember.
Garden fékk 485 milljónir
Crowberry leiddi einnig hlutafjárútboð tæknifyrirtækisins Garden í nóvember síðastliðnum, en með því náði fyrirtækið að auka hlutafé sitt um 3,8 milljónir Bandaríkjadala, sem jafngildir tæpum hálfum milljarði króna. Fyrirtækið, sem er rekið af Jóni Eðvaldi Vignissyni, fékk var einnig fjármagnað af Renaud Visage, stofnanda miðasöluvefsíðunnar Eventbrite, og Davíð Helgasyni, stofnanda fyrirtækisins Unity, sem þróar tölvuleikjahugbúnað.
Lockwood Publishing fékk 3,2 milljarða
Davíð fjárfesti einnig í leikjaframleiðandanum Lockwood Publishing, sem Haraldur Þór Björnsson stýrir og er staðsettur í Nottingham í Bretlandi í hlutafjárútboði síðastliðinn nóvember. Samkvæmt heimasíðunni PocketGamer leiddi kínverski tæknirisinn Tencent fjármögnunina, en hún nam samtals um 25 milljónum Bandaríkjadala, eða um 3,2 milljörðum króna. Lockwood er framleiðandi tölvuleiksins Avakin Life, sem yfir 200 milljónir manna nota.
Thunderful Group með 11,7 milljarða
Langstærsti hluti fjármögnunarinnar kom þó frá sænska tölvuleikjafyrirtækisins Thunderful Group, sem er rekinn af Brjáni Sigurgeirssyni og er með höfuðstöðvar í Gautaborg í Svíþjóð. Fyrirtækið var skráð í First North Premier kauphöllina í Svíþjóð byrjun desember á síðasta ári og gaf á sama tíma út 15 milljón nýja hluti í fyrirtækinu. Hver hlutur kostaði þá 50 sænskar krónur, sem jafngildir um 777 íslenskum krónum, þannig að fyrirtækið náði að auka hlutafé sitt um 11,7 milljarða króna með skráningunni.