Fylgi Samfylkingarinnar lækkar um tvö og hálft prósentustig milli kannana MMR og mælist nú 13,1 prósent. Það er minna fylgi en Vinstri græn, flokkur Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, mælist með í könnuninni, en það mælist 13,5 prósent. Þetta er í fyrsta sinn síðan seint í maí 2019 sem Vinstri græn mælast stærri en Samfylkingin og flokkurinn mælist nú næst stærsti flokkur landsins. Vinstri græn bæta við sig 2,6 prósentustigum af fylgi milli mánaða.
Sá stærsti, Sjálfstæðisflokkurinn, tapar einnig fylgi á milli kannana, alls 2,2 prósentustigum, og mælist nú með 22,2 prósent fylgi. Framsóknarflokkurinn, sem situr í ríkisstjórn með Vinstri grænum og Sjálfstæðisflokki, bætir við sig 2,3 prósentustigum milli mánaða og er nú með 11,4 prósent fylgi. Hann er eini stjórnarflokkurinn sem mælist með stuðning yfir kjörfylgi sínu sem stendur og fylgi flokksins hefur ekki mælst meira í könnunum MMR frá því í september 2019.
Miðflokkurinn tapar fylgi
Píratar mælast fjórði stærsti flokkur landsins með 11,4 prósent fylgi og Viðreisn bætir við sig 1,8 prósentustigi milli mánaða og mælist með 10,6 prósent fylgi. Báðir flokkarnir mælast yfir kjörfylgi.
Athygli vekur að Miðflokkurinn, sem vanalega bætir við sig fylgi þegar Sjálfstæðisflokkurinn dalar í könnunum, tapar 0,8 prósentustigum milli mánaða og mælist nú með átta prósent stuðning. Það er töluvert undir kjörfylgi hans.
Sósíalistaflokkur Íslands mælist með 4,1 prósent fylgi og Flokkur fólksins með 3,6 prósent. Báðir tapa fylgi milli mánaða og myndu ólíklega ná inn á þing miðað við þessa stöðu.
Alls segjast tvö prósent aðspurðra að þeir myndu kjósa aðra valkosti en þá níu sem hér hefur verið fjallað um.
Mörg mynstur í kortunum
Sameiginlegt fylgi stjórnarflokkanna þriggja er nú 47,1 prósent, sem er 5,7 prósentustigum undir því sem þeir fengu í kosningunum 2017. Í ljósi þess að hátt í tíu prósent atkvæða gætu fallið niður dauð, yrði könnun MMR niðurstaða kosninga, þá myndi það duga vel til að halda núverandi stjórnarsamstarfi áfram.
Þeir þrír stjórnarandstöðuflokkar sem mælast með fylgi yfir kjörfylgi; Samfylkingin, Píratar og Viðreisn, mælast nú samanlagt með 35,1 prósent fylgi, eða 7,1 prósentustigum yfir því sem þeir fengu haustið 2017. Þeir gætu því, miðað við þá stöðu sem birtist í könnun MMR, mögulega myndað ríkisstjórn með annað hvort Vinstri grænum eða Framsóknarflokki.
Ef gengið er út frá því að yfirlýsingar Píratar og Samfylkingar um að flokkarnir ætli ekki að starfa með Sjálfstæðisflokki haldi þá er raunar hægt að mynda margskonar fjögurra flokka ríkisstjórnir úr ofangreindu fimm flokka mengi. Þar yrði mögulega hægt að skilja hvern flokkanna fimm: Vinstri græn, Samfylkingu, Pírata, Framsóknarflokk eða Viðreisn, eftir fyrir utan stjórn.
Á hinn bóginn væri líka hægt að mynda ríkisstjórn frá miðju til hægri með Sjálfstæðisflokk, Framsóknarflokk, Viðreisn og Miðflokk innbyrðis ef þeir flokkar gætu náð saman um deilumál sín. Slík ríkisstjórn væri með 52,2 prósent atkvæða á bakvið sig. Mögulega gæti meira að segja verið hægt að mynda þriggja flokka ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Viðreisnar. Þeir mælast með 31-32 þingmenn inni miðað við þá stöðu sem sett er fram í könnun MMR.