„Ef fólk skilur ekki mikilvægi þess að hafa tillitssemi að leiðarljósi í umræðu um innflytjendamál þá liggur vandinn þar; í skilningsleysi á afleiðingum fordóma og óvandaðrar umræðu gagnvart hópum sem geta ekki svarað fyrir sig.“
Þetta sagði þingmaður Pírata, Björn Leví Gunnarsson, undir liðnum störf þingsins á Alþingi í síðustu viku. Miklar umræður spruttu upp í kringum frumvarp Ásmundar Einars Daðasonar félags- og barnamálaráðherra um breytingu á lögum um málefni innflytjenda en Helgi Hrafn Gunnarsson, þingflokksformaður Pírata, gagnrýndi þingmenn Miðflokksins harðlega fyrir það hvernig orðræðu þeir viðhefðu um útlendingamál hér á landi. Hann sagði hana meðal annars líkjast fordómafullri orðræðu um samkynhneigða á tíunda áratugi síðustu aldar og gyðingahatur.
Björn Leví sagði í sinni ræðu að hann ætlaði ekki að fara nánar út í þá umræðu sem þar fór fram en að eitt þyrfti þó að bæta við og væri það tillitssemi.
Þýðir ekki hömlur á tjáningarfrelsi eða ritskoðun
„Innflytjendur eru fjölbreyttur minnihlutahópur í íslensku samfélagi, hvað þá hópurinn sem hefur komið hingað vegna ofsókna í heimalandi sínu. Þetta er hópur sem getur illa tekið þátt í opinberri umræðu og á erfitt með að svara fyrir sig af augljósum ástæðum. Þessi staðreynd hefur ákveðnar afleiðingar í för með sér fyrir opinbera umræðu. Hún krefst þess að fjallað sé um málefni þessa hóps af þeirri tillitssemi sem er nauðsynleg til að þeir sem geta ekki svarað fyrir sig þurfi ekki að svara fyrir sig. Það þýðir ekki hömlur á tjáningarfrelsi eða ritskoðun, það þýðir einfaldlega að við þurfum að vanda málflutning okkar,“ sagði Björn Leví.
Telur hann að óvandað mál gagnvart þessum hópi geti mjög auðveldlega misskilist á alla vegu með mjög alvarlegum afleiðingum.
„Sögulega séð eru nokkrir hópar sem óvönduð og fordómafull umræða hefur bitnað sérstaklega illa á. Þar eru innflytjendur, trúarhópar og fólk með öðruvísi húðlit augljósustu dæmin.
Sögulega séð hafa ákveðin pólitísk öfl beislað fordómafulla umræðu sér í vil með slæmum og oft hörmulegum afleiðingum. Mikil er því ábyrgð þeirra sem daðra við slíka fordóma, jafnvel þeirra sem meina vel og daðra óvart við þá. Afleiðingunum er alveg sama um hversu vel meinandi fordómarnir voru,“ sagði þingmaðurinn.