Heiða Guðný Ásgeirsdóttir bóndi, sveitarstjórnarkona og varaþingmaður hefur bæst í hóp þeirra sem gefa kost á sér til þess að leiða lista Vinstri grænna í Suðurkjördæmi til næstu alþingiskosninga.
Hún sendi frá sér framboðstilkynningu í dag og segir þar að hennar helstu áherslumál í stjórnmálum og lífinu séu umhverfismál og virðing fyrir náttúrunni, jafnrétti og mannréttindi hvers konar og íslenskur landbúnaður.
„Að þessum málum og fleirum langar mig að vinna áfram innan raða Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs,“ segir í tilkynningu frá Heiðu, sem er sauðfjárbóndi að Ljótarstöðum í Skaftárhreppi.
Auk Heiðu hafa Kolbeinn Óttarsson Proppé þingmaður, Róbert Marshall upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar og Hólmfríður Árnadóttir skólastjóri í Sandgerði boðað að þau gefi kost á sér til þess að leiða Vinstri græn í Suðurkjördæmi.
Ari Trausti Guðmundsson er eini þingmaður flokksins í kjördæminu, en hann ætlar ekki að gefa kost á sér til þingstarfa að nýju.
Enn gæti bæst í þann hóp sem hefur gefið kost á sér til að leiða lista VG í kjördæminu, en framboðsfresturinn til efstu fimm sæta í forvali flokksins rennur út 8. mars. Kjörfundur verður rafrænn dagana 10.-12. apríl.