Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar segir að hún vilji ekki útiloka stjórnarsamstarf með neinum flokki fyrir kosningarnar síðar á árinu, meðal annars vegna þess að hún nennir ekki að „það verði enn og aftur alltaf bara Vinstri græn og Framsókn sem sitji eftir með öll spil á hendi.“
Þetta sagði Þorgerður Katrín í viðtali í hlaðvarpsþættinum Ein pæling, sem birtist á hlaðvarpsveitum á sunnudag.
„Ég skil mjög vel þegar Samfylkingin og Logi vinur minn eru búin að segja að þau vilji ekki vinna með Miðflokknum og Sjálfstæðisflokknum. Ég skil alveg þessa nálgun, út frá mörgum sjónarhornum, en ég ætla heldur ekki að leyfa mér að fara frá því að einblína á málefnin, og síðan er hitt: Ég nenni ekki að það verði enn og aftur alltaf bara Vinstri græn og Framsókn sem sitji eftir með öll spil á hendi eftir yfirlýsingaglaða formenn annarra flokka,“ sagði Þorgerður Katrín í þættinum.
„Pínulítil útópía“ í sumu sem sósíalistar segja
Þorgerður Katrín var spurð sérstaklega að því hvort hún gæti hugsað sér að fara í samstarf með Sósíalistaflokknum og útilokaði þau ekki frekar en aðra flokka, þrátt fyrir að á henni væri að heyra að hugmyndafræðilegur grundvöllur fyrir slíku samstarfi væri ekki mikill.
„Það er sama svarið. Ég horfi á þau og það sem þau eru að segja, sumt er fallegt og sumt er eitthvað sem ég ætti erfitt með að samþykkja og er pínulítil útópía, finnst mér. En það er fullt af fínu fólki þarna,“ sagði formaður Viðreisnar, sem heldur öllu opnu fyrir komandi kosningar.
Svaraði fyrir kúlulán og afskriftir
Þáttarstjórnendur spurðu Þorgerði Katrínu um það í upphafi viðtalsins hvernig hún myndi svara ungri manneskju sem segði að kúlulán og afskriftir til eiginmanns hennar, sem starfaði hjá Kaupþingi fyrir hrun, kæmu í veg fyrir að umrædd manneskja gæti hugsað sér að kjósa Viðreisn.
Þorgerður Katrín sagðist ekki verða „vör við nákvæmlega þessar pælingar hjá ungu fólki“ en að hún teldi „heilbrigt og jákvætt að fólk sé að velta fyrir sér fortíðinni,“ án þess að festast í henni.
„Ég hef farið í endurskoðun, endurmat, endurmenntun með sjálfa mig, hvernig maður horfir á þennan tíma,“ sagði Þorgerður Katrín, sem sagðist aldrei hafa skorast undan að svara fyrir lán sem eiginmaður hennar, Kristján Arason, fékk til þess að kaupa hlutabréf í Kaupþingi er hann starfaði þar. Þau mál væru öll uppgerð.
Þorgerður Katrín sagði að stóra málið væri hin pólitíska ábyrgð. „Ég steig til hliðar á meðan að rannsóknarskýrsla Alþingis var samin og unnin. Ég taldi það mikilvægt. Ég kom inn í þingið aftur og svo hætti ég í pólitík 2013 af því að ég taldi að ef ég ætti að vilja vera áfram í pólitík þyrfti ég einfaldlega að setjast niður með sjálfri mér og horfa til baka og hugsa: Hvernig get ég lært að þessu?“ sagði Þorgerður Katrín og bætti síðan við að sumt sem hefði verið viðhaft og sagt um þessi mál hefði ekki verið rétt.
Þorgerður Katrín sagði að hún hefði ekki talið sér stætt að halda áfram árið 2013, til þess væri hún ekki með trú og traust hjá almenningi. „Ég ákvað að hætta í pólitík, meðal annars út af þessu.“
Síðan hefði hún sótt sér endurnýjað umboð og endurnýjað traust árið 2016 er Viðreisn fór fram og einsett sér að gera ekki sömu hlutina á ný, til að þurfa ekki að upplifa aftur svipaða hluti í pólitík.
Langar að skamma verkalýðshreyfinguna og SA fyrir að pæla ekki í krónunni
Í viðtalinu sagði Þorgerður Katrín að efnahagsmálin yrðu aðaláherslumálið fyrir komandi kosningar og að ræða þyrfti íslensku krónuna. Hún sagðist hafa upplifað að vera komin inn í eins konar bergmálshelli eins og hafi verið hér á landi fyrir efnahagshrunið 2008 þegar hún átti orðastað við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra um gjaldmiðilsmál í þinginu í síðustu viku.
Forsætisráðherra sagðist þá ekki vera hissa á því að Þorgerður Katrín kæmi í ræðustól Alþingis og talaði niður krónuna, því það væri „auðvitað hluti af stefnu stjórnmálaflokks hennar.“
„Þegar ráðherrar eru byrjaðir að tala um að það megi ekki tala niður gjaldmiðilinn þá finnst mér ég vera komin í eitthvað „echo chamber“ frá fyrir hruns-tíma. Það má ekki eyðileggja partýið,“ sagði Þorgerður Katrín, sem sjálf var einmitt gagnrýnd fyrir að hafa sem ráðherra skellt skollaeyrum við varúðarröddum að utan í aðdraganda falls íslenska bankakerfisins.
Hún sagði hafa verið farið „mjög óvarlega“ hér á landi í aðdraganda efnahagshrunsins, þó ekki mætti draga dul á að fall Lehman Brothers og fleiri erlendir áhrifaþættir hefðu komið á óvart og vegið þungt. Sem betur fer væri búið að gera miklar breytingar á bankakerfinu. En gjaldmiðillinn væri stórt mál sem þyrfti að ræða fyrir komandi kosningar.
„Mig langar að skamma verkalýðshreyfinguna núna fyrir að vera ekki með þetta mál á sinni dagskrá og líka Samtök atvinnulífsins [...]. Þetta er risahagsmunamál fyrir íslenskan almenning, að hann sitji ekki eftir með áhættuna af íslensku krónunni,“ sagði Þorgerður Katrín.