Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði stjórnvöld ekki þurfa að hækka skatta í framtíðinni til að standa undir viðbragðsaðgerðum við efnahagskreppunni, þar sem skatttekjur myndu sjálfkrafa aukast þegar hagkerfið tekur við sér aftur. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra segir að ekki þurfi heldur að ráðast í „blóðugan niðurskurð“, heldur sé hægt að forgangsraða verkefnum ríkisins.
Ráðherrarnir sátu fyrir svörum á opnum fundi á vegum Sjálfstæðisflokksins í hádeginu í dag. Viðburðinum var streymt út á Facebook-síðu flokksins, en hægt er að nálgast upptöku af honum hér.
Þarf bara að stækka kökuna
Á fundinum var spurt hvort það myndi ekki koma að því fyrr en síðar að hækka skatta til að mæta afleiðingum COVID-19, en Bjarni svaraði þeirri spurningu neitandi. Hann benti á að tekjusamdráttur hins opinbera hafi ekki komið til vegna gríðarlegra skattalækkana, heldur vegna þess að efnahagsumsvifin í landinu drógust saman.
„Til að halda áfram með þessa rökleiðingu þá þarf í raun og veru bara að stækka kökuna aftur og þá skila tekjurnar sig tilbaka,“ bætti hann við.
Ekki blóðugur niðurskurður heldur hagræðing
Þórdís Kolbrún sagði ríkissjóð þó standa frammi fyrir tveimur valkostum á einhverjum tímapunkti: Skattahækkanir sem tækju nauðsynlegt súrefni frá atvinnulífinu og hagræðingu í ríkisútgjöldum. „Þetta snýst ekki um blóðugan niðurskurð eða að gera ekki neitt,“ sagði hún á fundinum.
Þess í stað minntist hún á uppstokkun á þeim kerfum sem hið opinbera sér um og forgangsröðun á þeim verkefum sem ríkið á að sinna, hvort sem það sé í heilbrigðiskerfi, menntakerfi eða eftirlitsstofnun. „Það er líka spurning: Þarf ríkið að eyða svona miklum fjármunum á ári hverju?“ bætti hún við. „Erum við kannski bara mögulega eyða of miklum fjármunum?“
Meiri hagræðing nauðsynleg að mati Ríkisendurskoðunar
Líkt og Kjarninn greindi frá á föstudaginn í síðustu viku kallaði Ríkisendurskoðun eftir minni útgjöldum hjá hinu opinbera svo að ríkið geti dregið úr hallarekstri og greitt niður skuldir til að endurheimta jafnvægi í efnahagsmálum.
„Efnahagsúrræði stjórnvalda eru hugsuð sem tímabundnar ráðstafanir en ljóst má vera að þanþol ríkissjóðs er takmörkunum háð þegar fram í sækir,“ segir Ríkisendurskoðun í skýrslu sinni.