Guðrún Hafsteinsdóttir, fyrrverandi formaður Samtaka iðnaðarins og markaðsstjóri Kjörís, sækist eftir því að verða oddviti Sjálfstæðisflokks í Suðurkjördæmi í næstu þingkosningum, sem fara fram í september á þessu ári. Frá þessu greindi hún í tilkynningu í kvöld.
Guðrún mun etja kappi við núverandi oddvita, Pál Magnússon, og Vilhjálm Árnason, sitjandi þingmann Sjálfstæðisflokks, um oddvitasætið. Ásmundur Friðriksson, annar maður á lista flokksins í kjördæminu, sækist áfram eftir öðru sætinu.
Í tilkynningu Guðrúnar segir að hún hafi síðustu vikur og mánuði fengið mikla hvatningu til að bjóða sig fram í prófkjöri Sjálfstæðismanna í kjördæminu sem fram fer 29. maí. Það geri hún vegna þess að hún vilji hafa áhrif á þróun samfélagsins. „Suðurkjördæmi býr yfir miklum tækifærum sem brýnt er að efla. Ég er tilbúin að taka þátt í þeirri vinnu og tel að reynsla mín og þekking muni nýtast vel.Í Suðurkjördæmi er iðandi og gott mannlíf og hér höfum við allt sem þarf til að vera leiðandi á öllum sviðum atvinnulífs. Ég trúi því að saman getum við eflt undirstöðu atvinnugreinar okkar og bætt lífskjör okkar sem hér búum og störfum.
Guðrún hefur setið í bæði fræðslunefnd og skipulags- og umhverfisnefnd Hveragerðisbæjar sem fulltrúi D-listans og þá á hún sæti í sóknarnefnd Hveragerðiskirkju. Árið 2004 stofnaði hún Sunddeild Íþróttafélagsins Hamars og var formaður deildarinnar til 2014.
Síðastliðinn áratug hefur Guðrún setið í stjórnum margra fyrirtækja og félaga. Hún var kjörin formaður Samtaka iðnaðarins árið 2014 og var þar formaður til 2020. Þá hefur hún einnig átt sæti í stjórn Samtaka atvinnulífsins, Háskóla Reykjavíkur, Bláa Lónsins og Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.