Viðmiðunarverð á bensíni á Íslandi hefur hækkað um tæp 14 prósent frá miðjum maímánuði í fyrra. Þá var það 194 krónur á lítra en er nú 220,9 krónur á lítra. Hlutur olíufélaga í hverjum seldum lítra er nú 15,54 prósent og hefur ekki verið minni síðan í janúar í fyrra. Líklegt innkaupaverð á eldsneyti hefur að sama skapi ekki verið hærra hlutfall af hverjum seldum lítra síðan í byrjun síðasta árs og bensínverðið hefur ekki verið hærra frá því í nóvember 2019.
Þetta má sjá í nýjustu Bensínvakt Kjarnans sem unnin er í samvinnu við Bensínverð.is.
Viðmiðunarverðið er fengið frá hugbúnaðarfyrirtækinu Seið ehf. sem meðal annars heldur úti síðunni Bensínverð.is og fylgst hefur með bensínverði á flestum bensínstöðum landsins daglega síðan 2007. Miðað er við næstlægstu verðtölu í yfirlitinu til að forðast að einhverju leyti áhrif tímabundinnar verðsamkeppni á allra lægsta verð. Viðmiðunarverðið er þó með lægstu verðum og sýnir þar með lægri hlut olíufélagsins en reikna má með að raunin sé meðaltalið af öllu seldu bensíni á landinu.
Miklar sviptingar í fyrra
Miklar sviptingar voru í bensínverði í framan af ári fyrra, sem rekja mátti til óróa á heimsmarkaði með olíu. Milli mars og apríl, þegar kórónuveirufaraldurinn var að breiðast hratt út um allan heim, lækkaði til að mynda líklegt innkaupaverð íslenskra olíufélaga á bensínlítra um meira en 60 prósent. Sú lækkun skilaði sér ekki strax skilað til íslenskra neytenda og bensínverð hélst nánast óbreytt. Hlutur íslensku olíufélaganna í hverjum seldum lítra varð hins vegar 78 prósent hærri í apríl 2020 en hún var í mars þar sem innkaupaverð á olíu hafði aldrei verið lægra sem hlutfall af seldum lítra hérlendis.
Síðan þá hefur bensínverð hækkað jaft og þétt og viðmiðunarverð í bensínvakt Kjarnans var 220,9 krónur um miðjan febrúar. Hlutdeild íslensku eldsneytissalana í hverjum seldum lítra er sem stendur um 34,3 krónur eða 15,54 prósent.
Bensínvakt Kjarnans reiknar út líklegt innkaupsverð á bensíni út frá verði á lítra til afhendingar í New York í upphafi hvers mánaðar frá bandarísku orkustofnuninni EIA og miðgengi Bandaríkjadals gagnvart íslenskri krónu í yfirstandandi mánuði frá Seðlabanka Íslands.
Í þessum útreikningum kann að skeika nokkru á hverjum tímapunkti vegna lagerstöðu eða skammtímasveiflna á markaði. Nákvæmara væri að miða við verð á bensíni til afhendingar í Rotterdam, en verðupplýsingar þaðan liggja ekki fyrir á opnum gagnaveitum. Mismunur á verði í New York og Rotterdam er þó yfirleitt mjög lítill.
Hlutur ríkisins 58,82 prósent
Hlutur olíufélags er reiknaður sem afgangsstærð þegar búið er að draga frá hlutdeild ríkisins í hverjum seldum bensínlítra og líklegt innkaupverð á honum frá reiknuðu viðmiðunarverði, enda haldgóðar upplýsingar um einstaka kostnaðarliði olíufélaganna ekki opinberar.
Hlutur ríkisins er að miklu leyti í formi fastrar krónutölu og því hækkar hlutfallið sem rennur til ríkisins að óbreyttu samhliða lækkandi innkaupaverði. Lægst hefur samanlagður hlutur ríkisins á tímabilinu verið 43,78 prósent í júlí 2008, en hæstur 63,27 prósent í maí 2020.
Hann er nú um stundir 58,82 prósent af hverjum seldum lítra. Það þýðir að um 130 krónur af hverjum seldum lítra fór til ríkisins í formi greidds virðisaukaskatts, almenns og sérstaks bensíngjalds og kolefnisgjalds.