Skipulags- og samgönguráð Reykjavíkurborgar samþykkti á fundi sínum á miðvikudag breytingu á deiliskipulagi í austurhluta Laugardals, sem felur í sér að afmörkuð er lóð undir allt að fimm smáhýsi fyrir heimilislausa Reykvíkinga, skjólstæðinga velferðarsviðs borgarinnar.
Úrræðið á að vera tímabundið og víkjandi í skipulagi og því ekki að hafa áhrif á langtímanotkunarmöguleika svæðisins.
Svæðið sem um ræðir er á milli Suðurlandsbrautar og Fjölskyldu- og húsdýragarðsins, steinsnar frá Glæsibæ. Þar er í dag malarbílaplan og tún á borgarlandi. Málinu hefur nú verið vísað áfram til borgarráðs. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skipulags- og samgönguráði sátu hjá við afgreiðsluna.
Skipulagsfulltrúi Reykjavíkurborgar lagði til að tillagan yrði samþykkt óbreytt, í umsögn sinni sem dagsett er 19. febrúar og má sjá hér, ásamt hluta af þeim umsögnum sem bárust um málið er það var til umsagnar síðasta vor.
Íþróttafélög sögðust óttast um öryggi barna
Málið mætti töluverðri andstöðu íþróttafélaga í Laugardalnum. Í sameiginlegri athugasemd fulltrúa Knattspyrnufélagsins Þróttar, Glímufélagsins Ármanns, listhlaupadeildar Skautafélags Reykjavíkur, Tennis- og badmintonfélags Reykjavíkur og borðtennisdeildar Víkings sagði að breytingarnar væru til þess fallnar að „ógna öryggi barna á leið í íþrótta- og tómstundastarf“ og gætu leitt til þess að færri foreldrar treystu sér til að senda börn sín ein á íþróttaæfingar, þar sem öryggi þeirra væri ekki tryggt. Því yrði að skutla þeim.
„Bílaumferð um dalinn mun þá óhjákvæmilega aukast og jafnvel mun einhver hluti barna ekki geta iðkað sína íþrótt,“ sögðu fulltrúar íþróttafélaganna. Þau sögðu smáhýsin verðugt verkefni, en þó mætti draga í efa að stærsta fjölskyldu- og íþróttasvæði landsins væri rétti staðurinn fyrir húsin.
Hvað með Geldinganesið, Vesturbæinn eða Breiðholt?
Íþróttafélög voru ekki þau einu sem settu sig upp á móti málinu, en alls bárust 69 umsagnir og athugasemdir við fyrirhugaða deiliskipulagsbreytingu, flestar frá íbúum í Laugardalnum, sem margir stungu upp á öðrum staðsetningum.
Samkvæmt umsögn skipulagsfulltrúa, sem setti einnig fram svör við innkomnum athugasemdum, var m.a. stungið upp Geldinganesi, Grafarvogi, miðborg, Vesturbæ, Breiðholti og Sundahafnarsvæðinu í innsendum umsögnum.
Skipulagsfulltrúi tekur fram að hann hafi verið opinn fyrir tillögum að staðsetningum sem uppfylli þau skilyrði sem nauðsynleg eru fyrir slíkt smáhýsi, en bréfritarar hafi þó eingöngu nefnt aðra borgarhluta, án þess að tilgreina nánari staðsetningar.
„Tekið er fram að allir borgarhlutar eru – og hafa verið – til skoðunar,“ segir í umsögn skipulagsfulltrúa. Sambærileg smáhýsi fyrir heimilislausa hafa nýlega verið tekin í notkun í Gufunesi. Verið er að skipuleggja fleiri smáhýsi á öðrum stöðum í borginni, til dæmis uppi á Stórhöfða. Fyrr í þessum mánuði fjallaði Fréttablaðið um að rekstraraðilar sem mótmæla áformum um þrjú smáhýsi þar hefðu reynt að fá deiliskipulag borgarinnar sem heimilar byggingu þeirra fellt úr gildi. Án árangurs.
Reitir hótuðu að hætta við að byggja upp Orkureitinn
Fasteignafélagið Reitir hótaði að falla frá uppbyggingaráformum sínum á svokölluðum Orkureit handan Suðurlandsbrautar yrðu smáhýsin byggð á þessum stað. Á reitnum eru áform um byggingu íbúða sem gætu orðið heimili 1.000 manns.
Í umsögn fasteignafélagsins segir að uppbygging smáhýsanna fimm myndi setja göngutengingu Orkureitsins yfir í Laugardal „í uppnám“ og að smáhýsin gætu jafnframt haft verulega neikvæð áhrif á ímynd og sölumöguleika íbúðanna sem Reitir ætla að byggja.
„Verði deiliskipulagið samþykkt með tilheyrandi neikvæðum áhrifum, áskilur lóðarhafi sér rétt til að endurskoða uppbyggingaráform á Orkureitnum. Rétt er að minna á að stefna borgaryfirvalda í skipulagsmálum er sú að þétta byggð meðfram svokölluðum þróunarás og fyrirhugaðri legu borgarlínu. Að mati Reita væri borgin með umræddri skipulagsákvörðun að vinna gegn þeirri stefnu, verði niðurstaðan á þá leið að lóðarhafi hætti alfarið við uppbyggingaráform sín og haldi áfram fasteignarekstri núverandi bygginga á lóðinni eins og verið hefur,“ segir í umsögn Reita.
Skipulagsfulltrúi svarar þessu sérstaklega í umsögn sinni og bendir á að núverandi göngutengingar yfir Suðurlandsbrautina og niður í Laugardal verði enn til staðar. Einnig er Reitum bent á að þeir sem telji sig verða fyrir tjóni vegna skipulagsáætlana og geti sýnt fram á það tjón geti átt rétt á bótum úr sveitarsjóði.
Vona að hverfið taki vel á móti nýjum íbúum
Fulltrúar meirihlutans í skipulags- og samgöngurráði létu bóka á fundinum á miðvikudag að umrædd smáhýsi væru hluti af hugmyndafræðinni „Húsnæði fyrst“ sem er á vegum Velferðarsviðs og væru hugsuð til að hjálpa fólki sem hefði verið í heimilisleysi og hefði miklar þjónustuþarfir.
„Hafa ber í huga að þó þessi hús séu tímabundin í staðsetningu sinni þá eru þau heimili fólks, ekki dvalarheimili eða lokuð stofnun, og þurfa að vera nálægt þeirri þjónustu og samfélagsinnviðum sem borgarbúar þurfa að nýta. Ekki er auðvelt ná sátt um staðsetningu þeirra í íbúðabyggð eða blandaðri byggð, og því þarf að leita á staði sem eru í námunda við sömu innviði á öðrum skipulagssvæðum. Hér er um að ræða opið svæði, en samkvæmt gildandi aðalskipulagi er heimild til að koma fyrir slíkum búsetuúrræðum á slíku svæði. Þó ber að hafa í huga að þau eru víkjandi og hafa ekki áhrif á langtímanotkunarmöguleika svæðisins. Fulltrúar meirihlutans telja að nálægð við útivistarsvæði, almenningssamgöngur og samfélagsinnviði muni hafa jákvæð áhrif á þau sem þar munu koma til með að búa og vona að hverfið taki vel á móti þeim,“ segir í bókun fulltrúa borgarstjórnarmeirihlutans í skipulags- og samgönguráði.