Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður Vinstri grænna, hefur tilkynnt að hann sækist eftir því að leiða lista flokksins í Suðvesturkjördæmi í komandi kosningum. Hann starfaði áður sem öldrunarlæknir og sat í bæjarstjórn Kópavogs frá 2006-2017.
Ólafur Þór var í öðru sæti á lista flokksins í síðustu kosningum þegar Rósa Björk Brynjólfsdóttir leiddi Vinstri græn í Kraganum. Hún studdi hins vegar ekki myndun núverandi ríkisstjórnar og sagði sig úr flokknum í fyrra. Skömmu síðar gekk hún til liðs við Samfylkinguna og verður í framboði fyrir hana í Reykjavík í komandi kosningum, sem fram fara í september.
Fastlega er búist við því að Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra og varaformaður Vinstri grænna, muni einnig sækjast eftir því að leiða í Kraganum, en hann er ekki kjörinn þingmaður eins og stendur. Nokkuð ljóst þykir að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra muni áfram vera í fyrsta sæti á listum Vinstri grænna í Reykjavíkurkjördæmunum og líklegt að Guðmundur Ingi muni því ekki sækjast eftir sæti þar.
Það stefnir því í oddvitaslag í Kraganum hjá Vinstri grænum.
Verkefnin séu víða við frekari uppbyggingu velferðarsamfélagsins. „Við þurfum að ljúka byggingu Landspítalans, halda áfram að efla heilsugæsluna og byggja upp öldrunarþjónustu í samvinnu við sveitarfélögin. Það er nauðsynlegt að stíga djörf skref í umhverfismálum og náttúruvernd. Loftslagsmál eru mál sem varða okkur öll og framtíð barnanna okkar og komandi kynslóða.“