Verðþróun rafmyntarinnar Bitcoin á síðustu vikum svipar til Túlípanaæðisins í Hollandi á 17. öld, að mati Gylfa Magnússonar, prófessors í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Samkvæmt honum er notagildi myntarinnar takmarkað og því magn viðskipta með hana takmarkað. Enn fremur segir hann að þar sem vinnsla hennar sé kostnaðarsöm mun Bitcoin eyða meiri verðmætum heldur en hún skapar.
Takmarkað notagildi
Í grein sinni í nýjasta tölublaði Vísbendingar, sem kom út á föstudaginn, fer Gylfi yfir notagildi Bitcoin, sem og annarra rafmynta, auk framtíðarmöguleika þeirra. Þar bendir hann á að lítið sé hægt að nota myntina við greiðslumiðlun, þrátt fyrir að engar tæknilegar hindranir liggi þar að baki. Hins vegar sjái fáir kaupmenn ástæðu til að taka á móti greiðslu með Bitcoin, nema helst vegna viðskipta á jaðri hins svarta og hvíta hagkerfis.
Einnig bætir Gylfi við að óstöðugt gengi og vangeta bálkakeðjutækninnar við að ráða við mikið magn viðskipta spili stórt hlutverk í að rafmyntir hafi ekki orðið að almennilegum greiðslumiðli.
Nánast umhverfishryðjuverk
Helsti galli Bitcoin telur Gylfi þó vera að framleiðsla myntarinnar sé gríðarlega kostnaðarsöm. Staðfesting færslna með myntinni krefst flókinna og orkufrekra tölvuútreikninga, sem Gylfi kallar „gengdarlausa sóun“, en stór hluti íslenskra gagnavera fæst einmitt við þetta.
„Þótt íslenska rafmagnið sé e.t.v. sæmilega umhverfisvænt þá á það almennt ekki við um rafmagn sem notað er í þessu skyni,“ bætir Gylfi við. „Í heimi sem glímir við hnattræna hlýnun vegna orkunotkunar er Bitcoin því alvarlegt umhverfisslys – nánast umhverfishryðjuverk.“
Meiraflónshagkerfi
Vegna þess hve takmarkað notagildi Bitcoin hefur sem gjaldmiðill áætlar Gylfi að meirihluti viðskiptanna sem átt hefur sér stað með rafmyntina á undanförnum misserum sé drifinn áfram af spákaupmennsku. Þannig svipi kaupin á rafmyntinni til Túlipanaæðisins í Hollandi, þar sem verð kaupsamninga á túlipönum rauk upp úr öllu valdi vegna spákaupmennsku og hrundi svo á fyrri hluta 17. aldar.
Slíka þróun kallar Gylfi „meiraflónshagkerfi,“ þar sem kaupendur myntarinnar á yfirverði búast við að geta fundið einhvern annan sem sé til í að kaupa hana af þeim á enn hærra verði. Óhjákvæmilegt er að slík kerfi hrynji, að mati Gylfa.
„Þegar bólan hefur sprungið munu einhverjir hafa grætt einhver ósköp, þ.e. þeir sem sluppu út úr meiraflónshagkerfinu í tíma,“ segir Gylfi. „Það geta hins vegar ekki allir sloppið. Þeir sem koma með peninga inn á lokametrunum í bólunni koma verst út. Meðalfjárfestirinn mun tapa verulegum hluta sinnar fjárfestingar vegna þess að verðmætasköpunin í heild er ekki núll heldur neikvæð vegna kostnaðarins við námavinnsluna.“
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu með því að smella hér.