Haraldur Þorleifsson, stofnandi Ueno, vann fyrsta daginn sinn sem Twitter starfsmaður í dag, en hann seldi fyrirtækið til samfélagsmiðlarisans í byrjun árs.
Í stöðuuppfærslu á Twitter segir Haraldur frá því að það hafi tekið aðeins lengri tíma en til stóð að hann myndi hefja störf þar sem fyrirtækið bauðst til að setja upp fyrirtæki á Íslandi í kringum starfsemi svo Haraldur gæti áfram búið hérlendis. „Þannig að, Twitter Reykjavík er nú raunveruleiki!“ skrifar Haraldur í færslunni.
Today was my actual first day as a Twitter employee.
— Halli (@iamharaldur) February 27, 2021
It took a bit longer to set me up because they graciously offered to set up a corporate entity for me in Iceland so I could stay here.
So, Twitter Reykjavik is now a reality!
Í fyrirtækjaskrá er hægt að sjá að „Twitter Netherlands B.V. útibú“ var skráð hérlendis 25. janúar síðastliðinn. Rekstrarform þess er „útibú erlends félags“ og atvinnugreinaflokkunin „önnur ótalin sérfræðileg, vísindaleg og tæknileg starfsemi“.
Seldi Ueno til Twitter
Greint var frá því í byrjun árs að samfélagsmiðlinn Twitter hefði fest kaup á Ueno. Það gerði Dantley Davis, hönnunarstjóri Twitter, í stöðuuppfærslu á miðlinum sjálfum. Ueno var tækni- og hönnunarfyrirtæki sem Haraldur stofnaði utan um verkefnavinnu árið 2014,
Ueno hefur verið með starfsemi í San Francisco, New York og Los Angeles, auk skrifstofu í Reykjavík, og hefur stækkað hratt á síðustu árum.
Samkvæmt tilkynningu Davis áttu Haraldur og aðrir starfsmenn Ueno ganga til liðs við hönnunar- og rannsóknadeild Twitter, eftir að hafa áður sinnt verkefnum fyrir samskiptamiðilinn sem verktakar.
Kaupverðið í þessum viðskiptum hefur ekki verið gefið upp, en Ueno velti yfir tveimur milljörðum króna árið 2019.
Í frétt tæknimiðilsins TechCrunch var haft eftir talsmanni Twitter, þegar greint var frá kaupunum, að Ueno muni ljúka verkefnum sínum fyrir aðra viðskiptavini á næstu vikum.
Síðan muni Twitter hitta alla núverandi starfsmenn Ueno til þess að kynnast þeim og sjá hvar og hvort þeir muni passa inn í starfsemi Twitter.
Ætlar að greiða alla skatta hérlendis
Haraldur vakti mikla athygli í lok síðasta mánaðar þegar hann greindi frá því að allir skattar sem greiddir verði vegna sölu fyrirtækisins til Twitter verði greiddir á Íslandi.
Í stöðuuppfærslu á Twitter, sem var á ensku, sagði Haraldur að hann hafi fæðst á Íslandi og að foreldrar hans hafi verið lágtekjufólk. Auk þess glími hann við alvarlega fötlun. „En þar sem þetta land býður upp á fría skóla og fría heilbrigðisþjónustu þá gat ég ég dafnað.“
Þess vegna sé hann stoltur að greina frá því að allir skattar sem verða greiddir vegna sölunnar á Ueno verði greiddir á Íslandi til að styðja við það kerfi sem studdi við hann á sínum tíma.