Símtöl Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra til Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, á aðfangadag voru að mati Áslaugar óformleg og því ekki skráningarskyld. Þetta sagði Áslaug í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. Hún hafi með símtölunum verið að afla sér upplýsinga vegna símtala frá fjölmiðlum og sagði hún slíka upplýsingaöflun einstakra starfsmanna og ráðherra til að veita fjölmiðlum réttar upplýsingar ekki falla undir ákvæði um skráningu mála í reglum um skráningu samskipta.
Í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag beindi Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingar, spurningum til Áslaugar. Hann sagði að á tímum jarðskjálfta, kórónuveiru og mikils atvinnuleysis þætti mörgum ef til vill ekki ástæða til að gera veður út af mannfagnaði á Þorláksmessu þar sem fjármálaráðherra var viðstaddur eða þá vegna símtölum dómsmálaráðherra til lögreglustjóra degi síðar.
Stormur í vatnsglasi eða gola í freyðivínsglasi?
„Ég hef heyrt Sjálfstæðismenn tala um storm í vatnsglasi í þessu sambandi og mætti kannski allt eins tala um golu í freyðivínsglasi. Algjört „smámál“ segja menn. En er það? Málið, það snýst um sjálfstæði lögreglunnar. Það snýst um valda- og virðingarröð. Það snýst um að allir borgara sitji við sama borð gagnvart lögunum,“ sagði Guðmundur.
Hann sagði lögreglu oft hafa gengið nærri fólki í viðkvæmri stöðu með dagbókarfærslum sínum. Fyrst nú, þegar þess væri getið að ráðherra hefði verið á stað þar sem sóttvarnarreglur hefðu mögulega verið brotnar sæi ráðherra tilefni til að „taka upp tólið“ og spyrja út í dagbókarskrif lögreglunnar. Guðmundur spurði í kjölfarið hvort að persónuverndarsjónarmið hefðu verið það sem var efst á baugi í fyrirspurnum fjölmiðla og hvort að ráðherra væri reiðubúinn til að deila því hvað hefði farið á milli hennar og lögreglustjórans í símtölunum.
Á í góðum samskiptum við lögreglu
Áslaug Arna byrjaði á því að taka fram að þetta væri ekki í fyrsta sinn sem hún ræðir við lögreglu vegna dagbókarfærslna lögreglunnar. Hún sagði að það hefðu áður komið fyrir að lögreglan hefði þurft að biðjast afsökunar á dagbókarfærslum gengið hefðu of nærri borgurum. Símtölin hefðu snúist fyrst og fremst um hvaða reglur giltu er varða persónuverndarsjónarmið.
„Ég hef margítrekað hvað fór okkar á milli. Ég spurði um þær verklagsreglur sem giltu um þessar dagbókarfærslur því ég hafði fengið spurningar um það frá fjölmiðlum sem og hvaða persónuverndarsjónarmið giltu,“ sagði Áslaug. Hún bætti því við að hún hefði ekki áhyggjur af ráðherrum ríkisstjórnarinnar hvað þetta atriði varðar heldur hafi hún einfaldlega viljað geta svarað spurningum fjölmiðla um persónuverndarsjónarmið og hversu langt lögreglan geti gengið í framsetningu upplýsinga í dagbókarfærslum sínum.
Símtal klukkan hálf fimm á aðfangadag
Guðmundur Andri steig í pontu öðru sinni í kjölfarið og spurði hvort að fjölmiðlum hefði verið mest umhugað um að spyrja um verklagsreglur lögreglunnar. Hann spurði einnig símtölin voru ekki skráð í ráðuneytinu. „Þessi símtöl voru ekki skráð í ráðuneytinu eins og reglan er þó um öll formleg og óformleg slík samskipti, teljist þau mikilvæg, eins og þar stendur. Hvers vegna? Voru þetta ekki mikilvæg samskipti? Ef þau voru ekki mikilvæg, af hverju þá að vera að hringja í fólk klukkan hálf fimm á aðfangadag?“ spurði Guðmundur
Áslaug Arna sagðist ekki ætla að leggja mat á hvað fjölmiðlum var mest umhugað um á aðfangadag en að hún hefði engu að síður verið spurð um reglurnar er snúa að persónuvernd. „Staðan var þannig að fjölmiðlar fjölluðu um að færslan hefði verið óvenjuleg, hún hefði verið ítarleg,“ sagði hún.
Undir lok svars síns áréttaði Áslaug Arna það að Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, væri ekki til rannsóknar vegna meintra brota á sóttvarnarreglum. „Það er líka rétt að geta þess að það er salur til rannsóknar en ekki ráðherra. Voru þessi samskipti ekki mikilvæg? Ég skrái ekki og það er ekki skylda að skrá óformleg samtöl við yfirmenn stofnana til að leita mér upplýsinga. Eins og sjá má um reglur um skráningu samskipta þá fellur þetta símtal ekki undir ákvæði um skráningu mála. Upplýsingaöflun einstakra starfsmanna og ráðherra til þess að veita fjölmiðlum réttar upplýsingar falla ekki undir það ákvæði.“