Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingar segir það „kostulegt“ að heilbrigðisráðherra „finni hjá sér þörf“ til að fetta fingur út í orð sín í tíufréttum Ríkisútvarpsins í gærkvöldi. Staðan sé „mun alvarlegri en svo að það eigi að fara í pólitíska leiki í fjölmiðlum á milli formanns velferðarnefndar og ráðherra um hvað sé sagt og hvað sé ósagt.“
Heilbrigðisráðuneytið sendi frá sér tilkynningu fyrr í dag þar sem fram kom að „alvarlegar athugasemdir“ væru gerðar við málflutning Helgu Völu og hún sökuð um að hafa brotið trúnað um það sem fram fór á nefndarfundi hjá velferðarnefnd Alþingis, sem hún stýrir.
Nefndarformaðurinn segir í samtali við Kjarnann að hún telji sig ekki hafa brotið þingskaparlög með því að segja frá því í sjónvarpsviðtali við RÚV í gær að fram hefði komið á fundi nefndarinnar að hluti sveitarfélaga landsins væri að nýta fé sem ætti að renna til reksturs hjúkrunarheimila í eitthvað annað en að reka hjúkrunarheimilin.
Hún hafi ekki eignað neinum einstaklingi ummælin eða vitnað orðrétt til þeirra. „Óheimilt er að vitna til orða nefndarmanna eða gesta sem falla á lokuðum nefndarfundi nema með leyfi viðkomandi,“ segir um þetta atriði í þingskaparlögum.
Helga Vala segir að það eigi erindi við almenning ef stjórnvöld telji að verið sé að nota almannafé í annað en það sem fyrirskipað er á fjárlögum. Einnig þurfi sveitarfélögin auðvitað að vita um að slíkar ásakanir séu uppi á borðum. Um sé að ræða sérstakt áhyggjuefni.
„Það kann að vera óheppilegt að fulltrúi stjórnvalda tali með svona hætti, en það er ekki eftirlitsaðilinn, fastanefnd Alþingis, sem ber á því ábyrgð,“ segir Helga Vala og bætir við að það sem sé til umræðu á lokuðum nefndarfundum þingsins sé oft til opinberrar umræðu í fjölmiðlum.
„Í þingskaparlögum er afdráttarlaust kveðið á um að trúnaður skuli ríkja um málefni sem rædd eru á lokuðum nefndarfundum. Heilbrigðisráðuneytið verður að geta treyst því að samskipti við velferðarnefnd byggi á heilindum, virðingu fyrir þeim málum sem þar eru til umfjöllunar og að trúnaðar sé gætt líkt og áskilið er í lögum,“ sagði hins vegar í tilkynningu ráðuneytisins, sem sendi bréf á Helgu Völu og afrit af því á forseta Alþingis.
Sveitarfélögin þurfi að fá svör
Helga Vala segir að skeytasendingar um meint trúnaðarbrot séu þó ekki stóra málið sem þurfi að vera til umræðu. „Staðan er sú að sveitarfélögin, eitt af öðru eru að segja upp samningum við ríkið um rekstur hjúkrunarheimila. Sveitarfélögin hafa verið að setja umtalsverða fjármuni í reksturinn því ríkið er ekki að fjármagna þetta með viðunandi hætti,“ segir Helga Vala.
Það sé það sem skipti máli og þurfi að ræða, en „ekki hvað mögulega er haft eftir nefndarformanni í fastanefnd.“
Akureyrarbær, Vestmannaeyjabær og Hornafjörður hafa sagt upp samningum sínum um rekstur hjúkrunarheimila. Þessi sveitarfélög þurfa, segir Helga Vala, að fá að vita hvort þau eigi að segja upp starfsfólki sínum og sömuleiðis segja þeim sem dvelja á hjúkrunarheimilunum að þar sé ekki lengur hægt að vera.