Að mati Bændasamtaka Íslands hefur ekki verið sýnt fram á með fullnægjandi hætti hver sé raunveruleg þörf á að upplýsingar um landbúnaðarstyrki séu gerðar opinberar að frumkvæði stjórnvalda. Þetta kemur fram í umsögn samtakanna sem send var atvinnuveganefnd Alþingis í vikunni vegna tillögu til þingsályktunar um birtingu upplýsinga um opinbera styrki og aðrar greiðslur í landbúnaði.
Í umsögninni segir að Bændasamtökin séu hlynnt gagnsæi í meðferð opinbers fjár og greiðara aðgengi almennings að upplýsingum sem falla með skýrum hætti innan gildissviðs upplýsingalaga. Það sé hins vegar ekki svo einfalt að heimila óheftan aðgang almennings að upplýsingum um opinbera styrki því í fámennari búgreinum, svo sem í svína- og kjúklingarækt, geti verið um viðkvæmar upplýsingar að ræða vegna samkeppnisstöðu og mikilvægra viðskiptahagsmuna bænda.
Upplýsingarnar verði ókeypis og öllum aðgengilegar
Þingsályktunartillagan kveður á um að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra birti opinberlega upplýsingar um styrki og aðrar greiðslur sem veittar eru á grundvelli búvörusamninga. Þessar upplýsingar skulu vera birtar rafrænt, vera öllum aðgengilegar og kosta ekkert. Þá verði birtar upplýsingar fyrir hvert ár um fjárhæð styrkja, grundvöll þeirra og nafn og búsetu styrkþega. Flutningsmenn tillögunnar eru þingflokkur Viðreisnar, þau Jón Steindór Valdimarsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.
Í greinargerð með tillögunni kemur fram hún hafi verið lögð fram á síðasta löggjafarþingi og sé nú endurflutt nánast óbreytt. „Markmiðið með þingsályktunartillögu þessari er að tryggja gagnsæi í veitingu almannafjár til framleiðenda á sviði landbúnaðar. Erfitt hefur reynst fyrir hagsmunaaðila og almenning að nálgast upplýsingar um slíkar greiðslur að undanskilinni ósundurgreindri heildarfjárhæð í fjárlögum hvers árs. Er þar munur á greiðslum á grundvelli búvörusamninga og því sem almennt gildir um stuðning íslenska ríkisins við sjálfstæða atvinnurekendur.“
Sambærilegar upplýsingar aðgengilegar í nágrannalöndum
Þar segir einnig að samkvæmt 13. grein upplýsingalaga skuli stjórnvöld veita almenningi upplýsingar um starfsemi sína og vinna markvisst að því að gera gagnagrunna og skrár aðgengileg með rafrænum hætti. „Slík hefur þó ekki verið framkvæmdin þegar kemur að upplýsingum um opinbera styrki og greiðslur til framleiðenda á sviði landbúnaðar,“ segir í greinargerðinni.
Nú þegar birta stjórnvöld upplýsingar um opinbera styrki í einhverjum mæli að eigin frumkvæði líkt og segir í greinargerðinni, til dæmis atvinnulífs-, rannsóknar- og menningarstyrki á vegum Rannís, listamannalaun og styrki á vegum verkefnisins Atvinnumál kvenna. Þar er einnig sagt að upplýsingar um stuðning til landbúnaðar opinberar og aðgengilegar á vef í nágrannalöndum okkar og innan Evrópusambandsins.
Lokaorð greinargerðarinnar eru á þá leið að með því að gefa almenningi kost að afla sér upplýsinga um opinbera styrki í landbúnaði megi auka traust til atvinnugreinarinnar auk þess sem það felur í sér aukið gagnsæi í meðferð opinbers fjár.
Hvetja stjórnvöld til að leita til samkeppnisyfirvalda
Líkt og áður segir telja Bændasamtökin ekki vera búið að sýna fram á þörfina til þess að gera þessar upplýsingar opinberar. Í umsögn sinni er það einnig sagt „óljóst hver þörf eða eftirspurn eftir upplýsingunum er raunverulega og í hvaða tilfellum slíkar upplýsingar eiga ekki erindi við almenning skv. upplýsingalögum.“
Bændasamtökin beina því einnig til stjórnvalda að leita álits samkeppnisyfirvalda áður en lengra er haldið, sé það vilji stjórnvalda að veita aðgang að þeim upplýsingum sem þingsályktunartillagan nær til.