Samfylkingin mælist með mest fylgi allra flokka í Reykjavík, samkvæmt nýrri könnun Gallup sem Fréttablaðið greinir frá. Borgarstjórnarflokkur flokksins mælist með 26,4 prósent fylgi í höfuðborginni sem er rétt yfir kjörfylgi hans, en Samfylkingin fékk 25,9 prósent atkvæða í borgarstjórnarkosningunum 2018.
Sjálfstæðisflokkurinn, sem var stærsti flokkurinn í borginni eftir síðustu kosningar með 30,8 prósent fylgi, hefur tapað miklu. Fylgi hans mælist nú 25,2 prósent eða 5,6 prósentustigum minna en 2018.
Allir flokkarnir fjórir – Samfylking, Viðreisn, Píratar og Vinstri græn – sem mynda meirihluta í Reykjavík undir forystu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra hafa bætt við sig fylgi á kjörtímabilinu. Píratar hafa bætt við sig 2,8 prósentustigum og mælast nú þriðji stærsti flokkur borgarinnar með 10,5 prósent fylgi. Viðreisn stendur nokkurn veginn í stað og mælist með 8,9 prósent stuðning. En mesta breytingin er á fylgi Vinstri grænna, sem biðu afhroð í kosningunum 2018 og fengu þá aðeins 4,6 prósent atkvæða. Fylgi flokksins Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra nú mælist 8,9 prósent og því hefur hann nálægt tvöfaldað fylgi sitt það sem af er kjörtímabili.
Allir nema einn í minnihluta tapa fylgi
Sósíalistaflokkurinn, sem vann mikinn kosningasigur 2018, heldur sínu fylgi og mælist með 6,6 prósent stuðning. Miðflokkurinn hefur hins vegar farið úr 6,1 í 4,5 prósent á meðan að Framsóknarflokkurinn, sem náði ekki inn manni í Reykjavík í síðustu kosningum, mælist nú með 4,3 prósent fylgi.
Ef niðurstaða könnunar Gallup yrði það sem kæmi upp úr kjörkössunum myndi það þýða að Vinstri græn myndu bæta við sig einum borgarfulltrúa á kostnað Sjálfstæðisflokks og þar með styrkja meirihlutann um einn borgarfulltrúa, og fara með hann upp í 13 af 23.
Framsóknarflokkurinn ætti sömuleiðis endurkomu í borgarstjórn með einn borgarfulltrúa á kostnað Flokks fólksins.
Miklar sviptingar í síðustu kosningum
Síðustu borgarstjórnarkosningar fóru fram 26. maí 2018. Alls náðu átta flokkar kjöri og höfðu aldrei verið fleiri. Sitjandi meirihluti féll og enginn augljós meirihluti var til staðar til að að taka við. Sá sem það gerði samanstóð, líkt og áður sagði, af Samfylkingu, Viðreisn, Pírötum og Vinstri grænum.
Ein allra áhugaverðasta niðurstaða kosninganna var sú að konur urðu í miklum meirihluta í Reykjavík næsta kjörtímabil. Alls eru 15 þeirra 23 borgarfulltrúa sem kjörnir voru í kosningunum konur. Og sex þeirra átta framboða sem náðu kjöri eru leidd af konum.
Einungis stærstu flokkarnir tveir, flokkarnir sem gerðu tilkall til borgarstjórastólsins í krafti stærðar sinnar, Sjálfstæðisflokkur og Samfylking, voru leiddir af körlum. Þá voru tveir frambjóðendur sem fæddir eru í öðru landi kjörnir í borgarstjórn og nýr yngsti borgarfulltrúi sögunnar er af blönduðum uppruna.
Næst verður kosið í Reykjavík og öðrum sveitarfélögum landsins eftir rúmt ár, 2022.