Hæstiréttur Íslands komst í dag að þeirri niðurstöðu að Mjólkursamsalan ehf. (MS) hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína og mismunað viðskiptaaðilum sínum með því að að selja hrámjólk til vinnslu mjólkurafurða á hærra verði til keppinauta en til eigin framleiðsludeildar og tengdra aðila. MS var gert að greiða alls 480 milljónir króna í ríkissjóðs vegna þeirra samkeppnislagabrota.
Með þessu staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu sem fengist hafði í málið bæði í héraði og fyrir Landsréttar. Í dómi Hæstaréttar segir að telja verði brot MS gegn samkeppnislögum alvarlegt „auk þess sem það stóð lengi og var augljóslega mjög til þess fallið að raska samkeppnisstöðu. Þá laut það að mikilvægri neysluvöru og snerti á þann hátt almenning í landinu.“
Hægt er að lesa dóm Hæstaréttar í málinu í heild sinni hér.
Komst óvænt yfir reikning
Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að MS hefði brotið mjög alvarlega gegn samkeppnislögum með athæfi sínu í september 2014. Málið fór þaðan til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og svo aftur til efnismeðferðar hjá eftirlitinu. Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá árinu 2016 sagði að háttsemi MS, sem seldi Kaupfélagi Skagfirðinga hrámjólk á lægra verði en öðrum á markaði, hefði verið til þess fallin að veita þeim verulegt samkeppnisforskot.
Þá komst hann að því að MS var að selja KS hrámjólkina á nokkuð lægra verði en honum sjálfum. Í kjölfarið tilkynnti hann það til Samkeppniseftirlitsins, sem fór að skoða málið.
Stofnendur og fyrrum eigendur Mjólku stefndu MS vegna málsins í fyrrasumar og fóru fram á að MS viðurkenni skaðabótaskyldu sína gagnvart þeim.
MS segist hafa verið í góðri trú
Í tilkynningu frá MS vegna málsins segir að fyrirtækið hafi verið „í góðri trú og taldi sig vera að vinna í samræmi við lög“ með viðskiptaháttum sínum.
Þegar málið hafi komið upp fyrir tæpum áratug síðan hafi skipulagi og framkvæmd á samstarfi afurðastöðva í mjólkuriðnaði og sölu á hrámjólk til aðila utan samstarfsins verið breytt. „Dómsniðurstaðan snýr því að afmörkuðum ágreiningi um túlkun laga í liðnum tíma, en hefur ekki bein áhrif á starfsemina í dag. Við blasir að hagræðing í mjólkuriðnaði hefur náð þeim markmiðum sem að var stefnt með lagabreytingum sem heimiluðu verkaskiptingu og samstarf afurðastöðva í mjólkuriðnaði. Þær breytingar eru forsenda framleiðniaukningar sem skilað hefur milljarða króna ávinningi til samfélagsins á hverju ári.“