Sveitarfélögin hafa algjörlega dregið að sér höndum í opinberum fjárfestingum að mati Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra. Þetta sagði Bjarni í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag eftir fyrirpsurn frá Jóni Steindóri Valdimarssyni, þingmanni Viðreisnar, um samdrátt í opinberum fjárfestingum.
„Þegar við skoðum opinberu fjárfestinguna uppskipt milli ríkis og sveitarfélaga þá sjáum við mjög skýrt að við höfum staðið við það sem var lofað var, að auka við fjárfestingu ríkisins. Og það sem meira er, við höfum fjármagnað hluti sem að enn eiga eftir að koma til framkvæmda þannig að ég hef væntingar um að við fáum dálítið sterka bylgju með okkur inn í árið 2021,“ sagði Bjarni meðal annars í svari sínu.
Þörfin fyrir inngrip skýr
Í fyrirspurn sinni sagði Jón Steindór ríkisstjórnina ekki hafa gengið rösklega til verks í opinberum fjárfestingum og vísaði í gögn um opinbera fjárfestingu sem segja að hún hafi dregist saman um 9,3 prósent á árinu 2020 en 10,8 prósent árið á undan. Þá hafi var þörfin fyrir inngrip af hálfu hins opinbera þegar verið orðin „æpandi“ að mati Jóns Steindórs vegna merkja um samdrátt í efnahagslífinu.
Jón Steindór minntist loforða stjórnarflokkanna um mikla innviðauppbyggingu í aðdraganda síðustu kosninga. „Einn þeirra lofaði 100 milljörðum og mætti því ætla að hann hafi verið tilbúinn með áætlun. Ekki síst þess vegna vekur það sérstaka undrun að sjá hve illa undirbúið framkvæmdavaldið er fyrir að setja af stað lykilframkvæmdir og fjárfestingar á þeim tíma þegar að nauðsynlegt hefði verið að beita þeim verkfærum í hagstjórninni.“
Hann sagði fjármálaráðherra einnig vera tíðrætt um sterka stöðu ríkissjóðs og hversu vel sú staða reyndist okkur nú þegar kreppir að. Hann sagði ríkisstjórnina hafa lofað auknum útgjöldum og sérstaklega til fjárfestinga í innviðum í fjárlögum og fjáraukalögum en ekki efnt þau loforð. „Gögnin sýna svart á hvítu að fjárfestingin hefur ekki skilað sér. Loforðið hefur ekki verið efnt. Ég spyr hæstvirtan fjármálaráðherra hvernig útskýrir hann þennan mikla samdrátt í opinberum fjárfestingum og er þetta að hans mati vottur um góða hagstjórn í dýpstu kreppu síðari tíma,“ sagði Jón Steindór.
Kreppan ekki jafn djúp og búist var við
Bjarni svaraði því til að aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafi skilað sér gríðarlega vel. „Það birtist okkur meðal annars í því að við stöndum núna ekki lengur í dýpstu kreppu í 100 ár heldur er samdrátturinn á árinu 2020 töluvert minni en áður var spáð,“ sagði Bjarni en tók fram að þar spila aðrir þættir inn í, svo sem einkaneysla og fjárfesting atvinnulífsins.
Líkt og áður var minnst á sagði Bjarni það skipta meginmáli þegar horft er til samdráttar í opinberri fjárfestingu að sveitarfélögin hafi haldið að sér höndum. Hann sagði ríkisstjórnina hafa staðið við það sem lofað var, að auka við fjárfestingu ríkisins auk þess sem nú væri búið að fjármagna verkefni sem eiga eftir að koma til framkvæmda. Þá sagði hann að fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar hafi fyrst og fremst verið efnahagsaðgerð þar sem áhersla yrði lögð á mál sem væru þjóðhagslega mikilvæg, að verkefnin sem ráðist yrði í væru mannaflsfrek og að verkefnin myndu veita mótvægi við þeim samdrætti sem þegar var farinn að myndast
Verðmæti framkvæmda minna en áætlað var
Eftir síðasta Útboðsþing Samtaka iðnaðarins sendu samtökin frá sér greiningu á fjárfestingum hins opinbera. Þar kemur fram að heildarverðmæti allra opinberra framkvæmda á síðasta ári hafi verið 29 prósentum minna heldur en boðað var á Útboðsþinginu í fyrra. Úr þessari greiningu má lesa að ríkisstofnanir- og fyrirtæki framkvæmdu mun minna á árinu 2020 heldur en áætlað var á Útboðsþingi 2020.
Á útboðsþingi 2020 var heildarverðmæti áætlaðra útboða langmest hjá Vegagerðinni, alls 38,7 milljarðar króna. Framkvæmdir Vegagerðarinnar á árinu námu hins vegar 31,1 milljörðum króna, um 20 prósentum minna en til stóð. Það ríkisfyrirtæki sem komst næst Vegagerðinni í heildarverðmæti áætlaðra útboða árið 2020 var ISAVIA. Verðmæti áætlaðra útboða félagsins nam 21 milljarði en framkvæmt var fyrir 0,2 milljarða á árinu. Þar á eftir kom Nýi Landspítalinn með áætluð útboð upp á tólf milljarða en framkvæmdir fyrir 11,4 milljarða.
Á milli Vegagerðarinnar og ISAVIA í verðmæti áætlaðra útboða á Útboðsþingi 2020 var Reykjavíkurborg. Áætlað verðmæti útboða borgarinnar var 19,6 milljarðar en þegar upp var staðið var framkvæmt fyrir 21,1 milljarð á árinu. Á listanum má einnig finna félög í eigu sveitarfélaga, svo sem Veitur, Orku Náttúrunnar og Faxaflóahafnir. Veitur fóru einnig fram úr áætlun, framkvæmdu fyrir 9,2 milljarða samanborið við 8,8 milljarða áætlun. Bæði Orka náttúrunnar og Faxaflóahafnir framkvæmdu hins vegar fyrir brot af því sem áætlað var. Áætluð útboð Orku náttúrunnar námu 4,5 milljörðum en framkvæmt var fyrir hálfan milljarð og áætluð útboð Faxaflóahafna námu 2,2 milljörðum en framkvæmt var fyrir 0,2.