Aflaverðmæti fyrstu sölu á afla sem íslensk fiskveiðiskip veiddu í fyrra var rúmum þremur milljörðum krónum meira en á árinu 2019 og rúmum 20 milljörðum krónum meira en það var á árinu 2018.
Aflaverðmætið fyrir allt árið 2020 var 148 milljarðar króna sem er það mesta sem verðmætið hefur verið innan árs síðar árið 2015.
Þetta kemur fram í bráðabirgðatölum um aflaverðmæti sem Hagstofa Íslands birti á föstudag.
Stærstur hluti fiskaflans er seldur í beinni sölu útgerða til vinnslu. Árið 2020 var 73 prósent af heildarafla seldur í beinum viðskiptum og nam verðmæti þess afla 80,7 milljörðum sem er um 57 prósent af heildarverðmæti aflans. Verðmæti sjófrysts afla nam 36,6 milljörðum og verðmæti afla sem fór á fiskmarkaði nam 23,1 milljörðum.
Þorsksalan dregur vagninn
Þessi verðmætaaukning átti sér stað þrátt fyrir að afli botnfisktegunda hafi verið fjögur prósent minni en á árinu 2019, eða 488 þúsund tonn alls. Aflaverðmæti hans jókst hins vegar um eitt prósent á síðasta ári og var í heild 113,4 milljarðar króna. Mest veiddist að venju af þorski, eða 278 þúsund tonn, sem var svo seldur fyrir um 76 milljarða króna, sem er tæpum sex milljörðum króna meira en þorsksala skilaði útgerðum árið 2019 og tæpum 19 milljörðum krónum meira en hún skilaði árið 2018.
Engin loðna var veidd í fyrra, líkt og á árinu 2019. Uppsjávaraflinn var svipaður í fyrra og árið áður, tæplega 530 þúsund tonn. Verðmæti þess afla jókst hins vegar um tíu prósent og var alls 23,8 milljarðar króna. Þar munaði mestu um að verðmæti veidds makrílafla jókst um 1,5 milljarða króna og var um tíu milljarðar króna.
Hagurinn vænkast um tæpa 500 milljarða frá hruni
Kjarninn greindi frá því í september 2020 að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hefðu hagnast um 43 milljarða króna á árinu 2019. Það var um 60 prósent meiri hagnaður en var af rekstri þeirra árið á undan þegar hann var 27 milljarðar króna. Alls nam hagnaður fyrirtækjanna 197 milljörðum króna á fimm ára tímabili, frá byrjun árs 2015 og út árið 2019. Á sama tíma hafa þau greitt 43 milljarða króna í tekjuskatt.
Frá hruni nemur samanlagður hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja 439 milljörðum króna.
Þetta kom fram í Sjávarútvegsgagnagrunni Deloitte f sem kynntur var á Sjávarútvegsdeginum 2020 sem fór fram 16. september síðastliðinn. Gagnagrunnurinn inniheldur rekstrarupplýsingar úr 89 prósent sjávarútvegsgeirans en fjárhæðirnar sem settar eru fram í honum hafa verið uppreiknaðar til að endurspegla 100 prósent hans.
Sjávarútvegsfyrirtækin áttu eigið fé upp á 297 milljarða króna í lok árs 2018. Frá hruni og fram að þeim tíma batnaði eiginfjárstaða sjávarútvegsfyrirtækjanna um 376 milljarða króna, en hún var neikvæð í lok árs 2008.
Alls greiddu fyrirtækin sér arð upp á 10,3 milljarða króna á árinu 2019. Frá árinu 2010 og út árið 2019 hafa þau greitt 103,2 milljarða króna til eigenda sinna í arðgreiðslur. Hagur sjávarútvegsfyrirtækjanna hefur því vænkast um 479,2 milljarða króna frá hruni og fram að byrjun árs í fyrra.
Þrjár blokkir halda á 43 prósent af kvóta
Í lok mars 2020 héldu tíu stærstu útgerðir landsins á tæplega 53 prósent af úthlutuðum kvóta, samkvæmt samantekt Fiskistofu. Innan þessa hóps eru aðilar sem eru tengdir þótt þeir séu það ekki samkvæmt lögum um fiskveiðar. Brim, Samherji og Kaupfélag Skagfirðinga eru fyrirferðamestu útgerðirnar. Þær halda á, einar og sér og ásamt félögum sem eigendur þeirra eiga í, á tæplega 43 prósent af öllum úthlutuðum kvóta.
Litlar breytingar hafa verið á umfangi kvóta þeirra stóru útgerðarhópa sem tengjast innbyrðis án þess þó að verða tengdir aðilar samkvæmt lögum á undanförnum árum.