Alls eru 40,5 prósent íbúa Reykjavíkur ánægðir með störf Dags B. Eggertssonar borgarstjóra, en 33,1 prósent aðspurðra eru óánægðir með störf hans. Rúmur fjórðungur, alls 26,4 prósent, segjast í meðallagi ánægðir með störf Dags.
Þetta kemur fram í könnun sem Maskína gerði daganna 15. til 25. febrúar síðastliðinn.
Ánægjan með störf Dags er mjög mismunandi milli hverfa. Hann nýtur mestra vinsælda í miðborginni og Vesturbænum þar sem 50,7 prósent eru ánægðir með hann en einungis 20,7 prósent óánægðir. Dagur er einnig vinsæll hjá íbúum Hlíða/Laugardals/Háaleitis og Bústaðahverfis en þar segjast 47 prósent vera ánægðir með hans störf og 27,7 prósent óánægðir.
Staðan snýst hins vegar við þegar íbúar í efri byggðum borgarinnar eru spurðir um ánægju sína með störf borgarstjóra. Minnst er ánægjan í Grafarvogi/Grafarholti og Úlfarsárdal þar sem 22,1 prósent segjast ánægðir með Dag en rúmlega tvöfalt fleiri, alls 47,8 prósent, eru óánægðir með störf borgarstjóra. Í Breiðholti og Árbæ er rétt rúmur þriðjungur ánægður með störf Dags en tæplega helmingur, 47,8 prósent, óánægður.
Menntun ráðandi breyta
Ánægja með Dag á meðal Reykvíkinga er nokkuð jöfn hjá báðum kynjum en munur er á henni þegar hún er skoðuð út frá aldursskiptingu. Borgarbúar undir fimmtugu, og yfir sextugu, eru mun ánægðari með Dag en þeir sem eru á aldrinum 50-59 ára, þar sem óánægjan mælist 40,9 prósent en ánægjan einungis 28,5 prósent. Mest er ánægjan með Dag hjá borgarbúum á fertugsaldri en rúmur helmingur þeirra segjast ánægðir með störf borgarstjóra á meðan að rétt um fjórðungur er óánægður.
Menntun er líka ráðandi breyta í ánægju með störf borgarstjóra. Hjá þeim borgarbúum sem eru með háskólapróf segjast tæplega helmingur vera ánægður með dag en 23,3 prósent óánægð. Hjá þeim sem eru með grunn- eða framhaldsskólapróf sem æðstu menntun er óánægjan hins vegar á bilinu 50-60 prósent og einungis um fjórðungur er ánægður með störf borgarstjóra.
Svarendur könnunarinnar voru 868 talsins og koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru allsstaðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá.
Mælist stærsti flokkurinn í borginni
Samfylkingin, flokkurinn sem Dagur leiðir, mælist með mest fylgi allra flokka í Reykjavík um þessar mundir, samkvæmt nýrri könnun Gallup sem Fréttablaðið greindi frá í gær. Borgarstjórnarflokkur flokksins mælist með 26,4 prósent fylgi í höfuðborginni sem er rétt yfir kjörfylgi hans, en Samfylkingin fékk 25,9 prósent atkvæða í borgarstjórnarkosningunum 2018.
Sjálfstæðisflokkurinn, sem var stærsti flokkurinn í borginni eftir síðustu kosningar með 30,8 prósent fylgi, hefur tapað miklu. Fylgi hans mælist nú 25,2 prósent eða 5,6 prósentustigum minna en 2018.
Allir flokkarnir fjórir – Samfylking, Viðreisn, Píratar og Vinstri græn – sem mynda meirihluta í Reykjavík undir forystu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra hafa bætt við sig fylgi á kjörtímabilinu. Píratar hafa bætt við sig 2,8 prósentustigum og mælast nú þriðji stærsti flokkur borgarinnar með 10,5 prósent fylgi. Viðreisn stendur nokkurn veginn í stað og mælist með 8,9 prósent stuðning. En mesta breytingin er á fylgi Vinstri grænna, sem biðu afhroð í kosningunum 2018 og fengu þá aðeins 4,6 prósent atkvæða. Fylgi flokksins Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra nú mælist 8,9 prósent og því hefur hann nálægt tvöfaldað fylgi sitt það sem af er kjörtímabili.