Alþýðusamband Íslands (ASÍ) telur að opinber skatt- og álagningarskrá, sem almenningur hefur hindrunarlausan aðgang að, auki gagnsæi, launajafnrétti og leiði til bættra skattskila og dragi úr undanskotum. Þetta kemur fram í umsögn ASÍ um tillögu til þingsályktunar um rafræna birtingu álagningar- og skattskráar. Óskað hefur verið eftir umsögnum um þingsályktunartillöguna en þetta er í fimmta skipti sem tillaga þess efnis er lögð fram.
Í umsögn ASÍ um tillöguna er vísað í ályktun miðstjórnar sambandsins um gagnsæi gegn misskiptingu frá ágúst 2019. Þar segir: „Það er afar brýnt að allir landsmenn greiði skatta og gjöld til samfélagsins óháð uppruna tekna, svo sem arðgreiðslur úr fyrirtækjum eða fjármagnstekjur. Upplýsingar um slíkt þurfa að vera aðgengilegar og gagnsæjar. Miðstjórn ASÍ hvetur Alþingi jafnframt til að samþykkja að birta álagningarskrár með rafrænum hætti, þar sem birtir eru allir álagðir skattar, þannig að aðgengi að þessum samfélagslega mikilvægu upplýsingum sé tryggt “
ASÍ tekur því undir markmið tillögunnar og sambandið hvetur til þess að málið nái fram að ganga.
Mikilvægt sé að huga að rétti einstaklinga til persónuverndar
Meðal þeirra sem skilað hafa inn umsögn um tillöguna er Persónuvernd. Vegna þess að tillagan er efnislega sambærileg tillögu sem lögð var fram á síðasta þingi ítrekar Persónuvernd umsögn sína frá því í fyrra. Þar áréttar Persónuvernd mikilvægi þess að hugað verði að rétti einstaklinga til persónuverndar í tengslum við þær lagabreytingar sem gert er ráð fyrir í þingsályktunartillögunni.
Í umsögninni er bent á að í heimild til birtingar og útgáfu skattskrá felist undantekning frá grunnreglu 117 greinar laga um tekjuskatt að á skattyfirvöldum hvíli þagnarskylda um tekjur og efnahag skattaðila auk þess sem að í heimildinni felist takmörkun á réttinum til friðhelgi einkalífs.
Athugasemdir Persónuverndar snúa einnig að áreiðanleika álagningarskrár. Þar er ekki að finna endanlega upplýsingar um skatta og gjöld sem lögð eru á einstaklinga og áreiðanleiki upplýsinganna því takmarkaður. Persónuvernd bendir einnig á að heimild annarra en skattayfirvalda til birtingar og útgáfu upplýsinga úr álagningarskrá nái ekki til þeirrar háttsemi að gera upplýsingarnar aðgengilegar í rafrænum gagnagrunni. Því kunna lagabreytingarnar sem gert er ráð fyrir í þingsályktunartillögunni að leiða til stefnubreytingar í þessu tilliti. „Bendir Persónuvernd því á að líta þarf til þeirra sjónarmiða sem búa að baki núgildandi fyrirkomulagi, t.d. möguleika skoðenda til að afrita upplýsingarnar án heimildar, og hvort talið sé tilefni til að víkja frá þeim.“
Persónuvernd segir það því mikilvægt að huga að rétti einstaklinga til persónuverndar í tengslum við þær lagabreytingar sem gert er ráð fyrir í tillögunni og að stofnunin myndi veita nánari efnislega umsögn um ákvæði lagafrumvarps á grundvelli þingsályktunartillögunnar.
Hentugra að birta rafrænt
Líkt og áður segir hefur tillagan verið lögð fram áður, og það fjórum sinnum, en flutningsmenn hennar eru í þetta sinn Andrés Ingi Jónsson, Björn Leví Gunnarsson, Inga Sæland og Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Lagt er til að fjármála- og efnahagsráðherra hlutist til um rafræna birtingu árlegrar álagningar og skattskrár sem verði aðgengileg allt árið uns ný skrá er birt. Þá er lagt til að ráðherra leggi fyrir Alþingi frumvarp þessa efnis á vorþingi 2021.
Í greinargerð með þingsályktunartillögunni segir að lagt sé til að hætt verði að birta álagningar- og skattskrár yfirvalda á pappír og í staðinn verði rafræn álagningarskrá aðgengileg allt árið. meðal annars. Eins og staðan er í dag segir í 98. grein laga um tekjuskatt að skattskrá skuli vera til sýnis „á hentugum stað“ í tvær vikur eftir að álagningu er lokið. „Skattskil eru nú öll orðin rafræn þannig að eðlilegt hlýtur að teljast að birta álagningarskrá með þeim hætti, enda langtum hentugra fyrir bæði skattyfirvöld og notendur álagningarskrárinnar að hafa þennan hátt á með tilliti til þeirrar tækni sem nú er almennt beitt,“ segir enn fremur í greinargerð.