Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra hefur boðað til upplýsingafundar vegna nýs smits sem greindist hjá starfsmanni Landspítalans í gær. Blaðamannafundurinn hefst kl. 17, en þar mun Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir fara yfir þróun mála ásamt Víði Reynissyni yfirlögregluþjónum.
Samkvæmt tilkynningu frá Almannavarnadeild hafa tveir einstaklingar greinst með COVID-19 utan sóttkvíar síðustu daga. Báðir tengjast óbeint einstaklingi sem kom frá útlöndum og greindist í seinni skimun 4. mars. Búið er að raðgreina upprunalega smitið og eitt afleitt smit og bæði reyndust með hið svokallaða breska afbrigði.
Einn hinna smituðu var starfsmaður á dag- og göngudeild Landspítala, en hluta af þeirri deild hefur nú verið lokað og stendur smitrakning þar yfir. Ekki er þó gert ráð fyrir að smitið muni hafa frekari áhrif á starfsemi spítalans, eins og staðan er. Meira en þrjátíu einstaklingar, sjúklingar og starfsmenn eru komnir í sóttkví í tengslum við smitið.
Smitrakning nær einnig til tónleika í Hörpu 5. mars sem hófust klukkan 20:00 en þar eru einstaklingar skráðir í sæti sem auðveldar smitrakningu. Um tíu þeirra sem næst sátu einstaklingnum eru komnir í sóttkví.
Á morgun, mánudag 8. mars, er fyrirhuguð skimun á öllum tónleikagestum. Þeir sem ætla að mæta í skimun í tengslum við tónleikana verða að bóka tíma í gegnum Mínar síður á Heilsuvera.is og velja þar „Tónleikagestur í Hörpu 5. Mars 2021.“ Þeir sem skrá sig fá sent strikamerki og tímasetningu fyrir skimun. Allir tónleikagestir eru eindregið hvattir til að mæta í skimun og jafnframt að huga vel að persónulegum smitvörnum og að takmarka samskipti við aðra þangað til að niðurstaða úr skimun liggur fyrir.