Útflutningsverðmæti málma, að járni undanskildu, jukust um rúma 76 milljarða króna í fyrra vegna verðhækkunar á alþjóðamörkuðum. Þessar verðhækkanir skiluðu því tekjum sem nema tæpum þremur prósentum af landsframleiðslu. Þetta kemur fram í tölum Hagstofu um vöruviðskipti á milli landa.
Kjarninn hefur áður fjallað um verðhækkanir á áli, en þær hafa verið gjöfular fyrir stóriðjuna hérlendis á síðustu mánuðum. Í desember í fyrra nam útflutningsverðmæti málmsins alls tæpum 34 milljörðum króna og var það nýtt met. Ef litið er til síðasta árs í heild sinni var verðmæti álútflutnings 37 prósentum hærra en það var árið 2020.
Svipaðar tölur má sjá þegar útflutningur á málmum, að járni undanskildu, eru skoðaðar fyrir síðasta ár. Samkvæmt þeim nam heildarverðmæti útflutningsins alls 295 milljörðum króna í fyrra, sem er tæplega 78 milljörðum króna meiri útflutningur en á árinu 2020. Það jafngildir 36 prósenta aukningu.
Nær öll aukningin er vegna hrávöruverðshækkana á heimsvísu, en magn útflutningsins breyttist lítið sem ekkert. Ef meðalverð á málmum hefði verið jafnhátt og það var árið 2020 hefði verðmæti útflutningsins í fyrra verið 76 milljörðum króna minna. Áhrif verðhækkana eftir mánuðum sést á mynd hér að ofan, en samkvæmt henni munaði mestu um hækkanirnar í fyrrahaust.
Fjórðungur af vexti VLF
Árið 2020 nam landsframleiðsla Íslands tæpum þrjú þúsund milljörðum króna, en 76 milljarðar króna eru 2,6 prósent af þeirri upphæð. Það er um fjórðungur af þeim vexti í landsframleiðslu að nafnvirði sem Seðlabankinn gerir ráð fyrir að hafa orðið hérlendis í fyrra, en samkvæmt nýjasta hefti Peningamála má búast við að hann hafi numið 4,9 prósentum árið 2021 og verðbólgan verið 4,4 prósent á sama tíma.
Samkvæmt Peningamálum, sem komu út fyrr í mánuðinum, hafa skammtímahorfur í álútflutningi hins vegar versnað á síðustu vikum, þar sem talið er að skerðing á orkusölu til álvera muni hafa neikvæð áhrif. Þó segir bankinn að langtímahorfurnar í geiranum séu óbreyttar.
Aths: 19. mars: Í fyrri útgáfu fréttarinnar var talað um framlag álverðsins til hagvaxtar, en réttara væri að tala um framlag þess til aukningar í landsframleiðslu. Fréttinni hefur verið breytt í samræmi við það.