Tilslakanir á samkomutakmörkunum sem settar eru fram í reglugerðarbreytingu heilbrigðisráðuneytisins og hafa þegar tekið gildi eru hvorki byggðar á minnisblaði sóttvarnalæknis né ráðleggingum hans. Í breytingunum fellst til dæmis að þrjátíu í stað tuttugu áður mega vera í sama rými á veitingastöðum með vínveitingaleyfi, svo sem á kaffihúsum, krám og skemmtistöðum. Þessir staðir mega eftir sem áður ekki hleypa nýjum gestum inn eftir kl. 21 og skulu þeir hafa yfirgefið staðinn eigi síðar en kl. 22.
Þá mega 100 manns vera viðstaddir athafnir trúar- og lífsskoðunarfélaga í stað 30 í áður. Sama fjölda gesta er heimilt að vera viðstaddur sviðslistar-, menningar- og íþróttaviðburði, sem og ráðstefnur, fyrirlestra eða aðra sambærilega viðburði að uppfylltum skilyrðum á borð við skráningu á nafni og kennitölu, grímunotkun og að 1 metra fjarlægð milli ótengdra gesta sé tryggð.
Þessar breytingar á reglugerð á takmörkunum á samkomum, sem gildir til 5. maí, voru í auglýstar í Stjórnartíðindum á miðvikudag. Fleiri breytingar voru gerðar. Í þeirri grein sem fjallar um takmarkanir á líkamsræktarstöðvum er fellt út ákvæði um að búnaður skuli ekki fara á milli notenda í sama hóptíma og skuli sótthreinsaður fyrir og eftir æfingu.
Þá er bætt við málsgrein um að tjaldsvæðum sé heimilt að taka við helmingi af hámarksfjölda móttökugetu hvers svæðis.
Reglugerð um samkomutakmarkanir var síðast endurskoðuð og uppfærð 13. apríl og þá í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis. Helsta breytingin þá var að 20 máttu almennt koma saman í stað tíu áður.
Níutíu greindust á fimm dögum
Fljótlega eftir að þær tóku gildi fór enn á ný að síga á ógæfuhliðina í faraldrinum er hópsmit kom upp á leikskóla í Reykjavík. Á fimm dögum greindust 90 manns innanlands, m.a. fjöldi barna, og mátti rekja nær öll smitin til farþega sem komu til landsins en virtu ekki reglur um sóttkví og/eða einangrun.
Hingað til hefur heilbrigðisráðherra farið nær alfarið eftir ráðleggingum Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis í tengslum við aðgerðir í baráttunni við faraldurinn. Spurður hvort að þessar breytingar á samkomutakmörkunum í vikunni séu byggðar á minnisblaði eða ráðleggingum sóttvarnalæknis svarar Þórólfur: „Þetta er frá ráðuneytinu.”