46 af 1.826 milljarðamæringum á nýjum lista Forbes yfir ríkustu einstaklingana eru undir fertugu. Um helmingur þessara 46 einstaklinga hefur auðgast í gegnum tækninýjungar.
Milljarðamæringarnir 46 eiga samanlagt 152,8 milljarða dala, eða að meðaltali 3,3 milljarða dala hver.
Ríkasti milljarðamæringurinn undir fertugu er Mark Zuckerberg, forstjóri og stofnandi Facebook. Eignir hans eru metnar á 33,4 milljarða Bandaríkjadala, eða tæplega 4.500 milljarða íslenskra króna. Hann er í sextánda sæti á heildarlistanum, en þetta er í fyrsta sinn sem hann er á meðal tuttugu ríkustu einstaklinganna á lista Forbes. Zuckerberg er þrítugur en kom í fyrsta skipti inn á listann þegar hann var 23 ára gamall.
Evan Spiegel og Bobby Murphy stofnuðu Snapchat. (Mynd/EPA)
Stofnendur Airbnb eru á listanum sem og stofnendur Uber, GoPro og Whatsapp. Yngsti milljarðamæringurinn á listanum er forstjóri Snapchat, Evan Spiegel. Hann er 24 ára, en stofnendurnir tveir, Spiegel og Bobby Murphy, koma báðir nýir inn á listann.
Níu konur eru meðal þessara 46 milljarðamæringa undir fertugu, eða tæplega 20 prósent. Það er betra hlutfall kvenna en er á heildarlistanum, þar sem tæplega ellefu prósent einstaklinga á listanum eru konur.