Alls bíða 475 dómþolar eftir því að hefja afplánun í íslenskum fangelsum. Sá sem hefur beðið lengst hefur beðið í tæp fimm ára eftir því að hefja afplánun. Ástæðan er einföld, öll fangelsi eru yfirfull, dómar eru að lengjast og málaflokkurinn hefur setið á hakanum árum saman.
Fangelsismálastofnun hefur látið Kjarnanum í té ýmsa tölfræði og upplýsingar um stöðu fangelsismála á Íslandi. Kjarninn mun fjalla ítarlega um málaflokkinn næstu daga.
Beðið eftir Hólmsheiði
Rúm 50 ár eru síðan að ákveðið var fyrst að byggja nýtt öryggisfangelsi á Höfuðborgarsvæðinu. Litla-Hraun hefur gegnt hlutverki stærsta öryggifangelsis landsins um áratugaskeið en ætið hefur verið ljóst að húsnæðið hentar ekki fullkomlega undir starfsemina, enda var Litla-Hraun byggt sem spítali, og að það er löngu hætt að geta tekið við öllum þeim fjölda sem það þarf að geta tekið við.
Alls eru sex fangelsi á Íslandi. Fjögur þeirra eru lokuð: Litla-Hraun, Fangelsið á Akureyri, Hegningarhúsið við Skólavörðustíg og Fangelsið í Kópavogi (sem er það eina sem hýsir kvenkyns fanga).Auk þeirra eru opin fangelsi að Sogni og Kvíabryggju.
Til stendur að loka bæði Hegningarhúsinu, sem var tekið í notkun fyrir um 140 árum síðan og er á undaþágu frá heilbrigðisyfirvöldum vegna þess að það uppfyllir ekki lágmarksskilyrði, og Fangelsinu í Kópavogi um leið og nýtt fangelsi rís á Hólmsheiði. Það er nú í byggingu og á að opna haustið 2015. Fangelsisrýmum fjölgar þá um 30 talsins.
Næsta grein mun fjalla um fjölgun á biðlistum eftir afplánunarplássi og hvernig staðan horfir við fangelsismálayfirvöldum.