Hagnaður Íslandsbanka nam 5,4 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi og er það töluverð aukning á milli ára en bankinn hagnaðist um 1,2 milljarða króna á sama tímabili í fyrra. Arðsemi eigin fjár var 11,6 prósent á ársgrundvelli á tímabilinu sem er yfir fjárhagslegum markmiðum bankans. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Íslandsbanki sendi frá sér samhliða birtingu uppgjörs fyrir annan ársfjórðung.
Viðsnúningur hefur orðið á rekstri Íslandsbanka á fyrri hluta ársins samanborið við árið í fyrra. Hagnaður af rekstri bankans nam 9 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins í ár samanborið við tap upp á 131 milljón króna á sama tímabili í fyrra. Arðsemi eigin fjár á fyrstu sex mánuðum þessa árs var 9,7 prósent á ársgrundvelli.
Inni í þessum hagnaðartölum er jákvæð virðisrýrnun en hún nam um 1,1 milljarði króna á fjórðungnum sem skýrist aðallega vegna batnandi útlits í ferðaþjónustu. Á sama tíma í fyrra var virðisrýrnun neikvæð um 2,4 milljarða króna vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins.
Útlánavöxtur vegna mikilla umsvifa í húsnæðislánum
Hreinar vaxtatekjur á fjórðungnum námu 8,4 milljörðum króna og hækka þær um 200 milljónir króna frá fyrra ári, vegna stækkunar lánasafns bankans. Útlán til viðskiptavina jukust um 5,9 prósent á fjórðungnum, þ.e. frá lok mars, og hafa aukist um 8,2 prósent frá árslokum. Það er helst vegna umsvifa í húsnæðislánum, þó einnig hafi orðið vöxtur í lánum til fyrirtækja.
Hreinar þóknanatekjur bankans námu 2,9 milljörðum króna á tímabilinu og hækkuðu um 26 prósent milli ára. Þá námu hreinar fjármunatekjur 619 milljónum króna á fjórðungnum samanborið við 181 milljón króna tap á sama tímabili í fyrra en breytingin stafar aðallega af hækkunum á innlendum hlutabréfamarkaði.
Hlutafjárútboð bankans skýrir að stórum hluta hækkun á stjórnunarkostnaði bankans sem hækkaði um 10,5 prósent á milli ára og nam 6,5 milljörðum á öðrum ársfjórðungi. Einskiptiskostnaður vegna útboðsins nam 588 milljónum króna.
Kostnaðarhlutfall bankans lækkaði á milli ára og var 49,9 prósent á öðrum ársfjórðungi ársins en var 57,5 prósent á sama tíma í fyrra. Fyrir fyrri hluta ársins í ár er kostnaðarhlutfallið 50,6 prósent en var 60,1 prósent í fyrra.
Eigið fé bankans nam 190 ma. kr. í lok júní og heildareiginfjárhlutfall bankans var 22,9 prósent samanborið við 21,9 prósent í lok mars, það er vel yfir markmiði bankans sem er 18,3-19,8 prósent en lögbundið lágmark er 17,8 prósent
Verð hlutabréfa í bankanum hækkað um 37 prósent frá útboði
Í tilkynningu frá bankanum er haft eftir Birnu Einarsdóttur bankastjóra að rekstrarniðurstaðan sé góð enda um viðspyrnu frá síðasta ári að ræða. Að mati hennar hefur fyrri hluta ársins verið viðburðaríkur.
„Það má með sanni segja að fyrri helmingur ársins hafi verið viðburðaríkur hjá bankanum. Hlutabréf Íslandsbanka voru tekin til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland þann 22. júní. Um var að ræða stærsta frumútboð hlutabréfa sem farið hefur fram hér á landi. Metþátttaka var í hlutafjárútboðinu og margföld umframeftirspurn og er bankinn með mesta fjölda hluthafa allra skráðra félaga á Íslandi,“ er haft eftir Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, í tilkynningu frá bankanum.
Íslenska ríkið á enn 65 prósenta hlut í bankanum en 35 prósenta hlutur var seldur í hlutafjárútboðinu í júní. Þá fjölgaði hluthöfum um 24 þúsund en níföld eftirspurn var í hlutafjárútboðinu. Fram kemur í skýrslu stjórnar að fjöldi hluthafa í lok júní hafi verið yfir 20 þúsund og því ljóst að þúsundir hafa selt bréf sín eftir að þau voru tekin til viðskipta. Verð bréfanna hækkaði um 20 prósent á fyrsta viðskiptadegi. Verð hlutabréfanna er í dag 108,5 krónur, sem er rúmlega 37 prósentum hærra en útboðsgengið sem var 79 krónur á hlut.