Innstæður landsmanna jukust mikið á árinu 2020 stóraukist og slöguðu langleiðina upp í það sem þær voru árið 2008, þegar þær voru í methæðum. Landsmenn áttu 940,3 milljarða króna á bankareikningum í lok árs 2020, sem var 84 milljörðum eða 9,8 prósent meira en á sama tíma árið áður. Frá árinu 2013 hafa þær aukist um 332,4 milljarða króna.
Þetta kemur fram í umfjöllun um álagningu einstaklinga á árinu 2021 í Tíund, fréttablaði Skattsins, sem Páll Kolbeins rekstrarhagfræðingur skrifar.
Kórónuveirufaraldurinn spilar þarna stóra rullu. Erfiðara var að eyða peningum á árinu 2020 en árin á undan, meðal annars vegna þess að það var einfaldlega ekki hægt að ferðast til útlanda. Íslendingar voru að eyða um 200 milljörðum króna í öðrum löndum á ári áður en kórónuveiran lét á sér kræla. Á sama tíma lækkuðu vextir af lánum skarpt, sem lækkaði samhliða fjármagnskostnað fólks, og samningsbundnar launahækkanir tóku gildi. Þá lækkuðu stjórnvöld kostnað af viðhaldsframkvæmdum með endurgreiðslum á virðisaukaskatti undir hatti átaksins „Allir vinna“, sem gerði það að verkum að milljarðar króna sem ella hefðu runnið í ríkissjóð sátu áfram inni á bankareikningum fólks og fyrirtækja.
Allar innstæður tryggðar í hruninu
Þegar neyðarlög voru sett á Íslandi 6. október 2008 voru innstæður í bönkum gerðar að forgangskröfum í slitabú þeirra banka sem féllu í kjölfarið, og lögin náðu til. Samhliða gaf ríkisstjórn Íslands út yfirlýsingu um að allar innstæður á Íslandi væru tryggðar og á grundvelli þeirrar yfirlýsingar voru innlendar innstæður færðar með handafli inn í nýja banka sem stofnaðir voru á grunni hinna föllnu.
Yfirlýsingin hafði þó aldrei haft neitt lagalegt gildi, heldur byggði á því að stjórnvöld höfðu sýnt það í verki að þau myndu tryggja innstæður ef á það myndi reyna.
Í Tíund sem birt var í fyrravor sagði að á hrunárinu 2008 hafi innstæður 183.765 fjölskyldna verið áritaðar á skattframtal en þá voru innstæður 933,7 milljarðar og innstæður barna um 24,1 milljarður. „Innstæður jukust því um 471,9 milljarða eftir að þær voru áritaðar eða 102,2 prósent og innstæður barna um 21 milljarð.“
Uppreiknað að teknu tilliti til verðbólgu er sú upphæð tæplega 967 milljarðar króna á gengi ársins 2020.
Næstu árin minnkuðu innstæðurnar jafnt og þétt, eða alls um 40,5 prósent til ársins 2013. Það sama gilti um innstæður barna, sem drógust saman um 21,1 prósent. Í nýja góðærinu, sem hófst af alvöru 2013, fóru innstæðurnar svo að vaxa á ný og voru, líkt og áður sagði, 940,3 milljarðar króna í lok árs 2020.
Umtalsvert fé á erlendum reikningum
Alls 5.605 íslenskar fjölskyldur áttu 29,2 milljarða króna á erlendum reikningum samkvæmt umfjöllun í nýjustu Tíundar.
Þar segir að það veki nokkra athygli að erlendar innstæður hafi aukist um 4,3 milljarða króna, eða 17,2 prósent á milli ára. „Gengisbreytingar kunna hér að valda nokkru.“
Vaxtatekjur af bankainnstæðum drógust hins vegar verulega saman milli ára. Þar skiptir mestu að stýrivextir Seðlabanka Íslands voru lækkaðir niður í 0,75 prósent eftir að faraldurinn skall á og héldust þar fram á vormánuði 2021, þegar þeir tóku aftur að hækka. Fyrir vikið fengu þeir sem geymdu peninganna sína á bankareikningum minni vaxtagreiðslur frá bönkunum sem fengu þá lánaða, en vaxtatekjur bankanna sjálfra stórjukust hins vegar samhliða.
Í Tíund segir að landsmenn hafi talið fram ellefu milljarða króna í vexti af innstæðum í bönkum á árinu 2020, sem var 8,4 milljörðum krónum minna en árið áður. Um er að ræða samdrátt upp á 43,3 prósent.
Þeir sem áttu innstæður erlendis töldu fram 179 milljónir króna í vexti sem var 16 milljónum króna minna en árið áður og börn fengu 222 milljónir króna í vexti á innstæður árið 2020, sem var fimm milljónum krónum minna en árið áður.