Í árslok 2019 áttu landsmenn 782 milljarða króna á innlendum bankareikningum. Innstæðurnar uxu um 42,8 milljarða króna frá lokum ársins á undan.
Auk innstæðna í innlendum bönkum áttu 5.632 fjölskyldur á skattgrunnskrá hér á landi 24 milljarða króna á erlendum bankareikningum.
Þetta kemur fram í umfjöllun um álagningu einstaklinga á árinu 2020 í Tíund, fréttablaði Skattsins, sem Páll Kolbeins rekstrarhagfræðingur skrifar.
Þrátt fyrir að þeim sem töldu fram erlendar innstæður hafi fjölgað um 627 milli ára þá lækkuðu innstæðurnar sjálfar um 1,5 milljarða króna. Þær eru færðar til eignar á skattframtali í íslenskum krónum á kaupgengi í árslok. Veiking íslensku krónunnar á því tímabili sem um ræðir vigtar því inn í lækkun á virði erlendra innstæðna þegar þær eru umreiknaðar í íslenskar krónur.
Uppgefnar eignir erlendis aukast
Bein fjármunaeign Íslendinga erlendis jókst um tæplega 58 milljarða króna á árinu 2019 og var 666 milljarðar króna um síðustu áramót. Frá lokum árs 2017 hefur hún aukist um 116 milljarða króna, samkvæmt hagtölum frá Seðlabanka Íslands.
Mestar eru uppgefnar fjármunaeignir Íslendinga í Hollandi, en þar eiga innlendir aðilar alls 357 milljarða króna. Uppgefnar eignir landsmanna á þekktum aflandseyjum hafa dregist mikið saman á undanförnum árum. Þannig er fjármunaeign innlendra aðila á Bresku Jómfrúareyjunum, sem inniheldur með annars Tortóla, sögð vera 21 milljónir króna í tölum Seðlabanka Íslands, sem er svipað og síðastliðin ár. Í árslok 2015 voru 32 milljarðar króna í eigu Íslendinga sagðir vera vistaðir í eyjaklasanum.
Skráningu á erlendri fjármunaeign Íslendinga var breytt fyrir nokkrum árum síðan. Nú eru gefnar upplýsingar um eign í færri löndum en áður en flokkurinn „óflokkað“ hefur stækkað. Áður var hægt að sjá til að mynda hver bein fjármunaeign Íslendinga er á Cayman-eyjum, Mön, Jersey, Guernsey og Máritíus. Það er ekki hægt lengur.
Sá hluti fjármuna Íslendinga erlendis sem eru óflokkaðir hefur nánast þrefaldast á nokkrum árum. Í lok árs 2017 var hann metinn á tæpa 25 milljarða króna en um síðustu áramót var sú upphæð komin upp í rúmlega 72 milljarða króna.