Alls voru 664 börn á biðlista Þroska- og hegðunarstöðvarinnar þann 1. júní síðastliðinn. Þar af bárust 360 beiðnir á fyrstu fimm mánuðum þessa árs. Á biðlistanum eru ekki einungis börn sem bíða eftir ADHD-greiningu heldur einnig börn sem eru með fjölþættari og samsettan vanda sem þarfnast þverfaglegrar greiningar, þ.e. taugaþroskaraskanir, svo sem einhverfu, ADHD, kvíðaraskanir, hegðunar- og samskiptavanda, depurð og vanlíðan.
Þetta kemur fram í svari Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Oddnýju G. Harðardóttur þingmanns Samfylkingarinnar um málefni fólks með ADHD.
Samkvæmt ráðherra hefur þróun biðlistans síðastliðin tvö ár verið í beinum tengslum við fjölgun beiðna árlega. Í árslok 2020 hafi 608 börn verið á biðlista, í árslok 2019 hafi 420 börn beðið og í árslok 2018 hafi 315 börn verið á biðlistanum. Fjöldi beiðna árið 2020 var 622, árið 2019 voru þær 536 og árið 2018 komu 520 beiðnir, að því er fram kemur í svarinu.
717 bíða eftir greiningu hjá ADHD-teymi Landspítalans
Oddný spurði einnig hversu margir fullorðnir væru á biðlista eftir greiningu og þjónustu hjá ADHD-teymi Landspítala og hvernig biðlistinn hefði þróast síðastliðin tvö ár.
„ADHD-teymi Landspítala hefur haft það hlutverk að sinna greiningu og meðferð ADHD fyrir fólk 18 ára og eldra. Á biðlista eftir greiningu hjá ADHD-teymi Landspítala voru í byrjun júní 2021 alls 717 einstaklingar. Það er aukning milli ára þar sem í maí 2020 voru 480 einstaklingar á biðlistanum og í maí 2019 biðu 565 einstaklingar.
Fækkun á biðlistanum frá því í maí 2019 þar til í maí 2020 skýrist meðal annars af því að gert var sérstakt átak í skimun á meðan samkomutakmarkanir voru í gildi vegna COVID-19. Biðlistinn hefur því lengst. Auk þess eru nú um 120 tilvísanir sem ekki eru komnar inn á biðlista þar sem eftir á að taka afstöðu til þess hvort þau mál eigi heima hjá ADHD-teymi Landspítala. Á biðlista eftir meðferð hjá lækni eru nú 66 einstaklingar,“ segir í svari ráðherra.
Vinna við tillögur til úrbóta á lokastigi
Enn fremur spurði Oddný hvaða áform ráðherra hefði, ef einhver, um að eyða biðlistum eftir greiningu og þjónustu vegna ADHD, annars vegar hjá börnum og hins vegar fullorðnum, og þá hver.
Í svarinu kemur fram að núna liggi fyrir greiningar um hvar skórinn kreppir svo að vandi þessa máls sé nokkuð ljós. „Undanfarna mánuði hefur verið unnið að lausn þess að mæta betur þörf barna og fullorðinna á greiningu og þjónustu vegna ADHD. Sú vinna hefur meðal annars verið unnin í samvinnu við ADHD-samtökin. Vinna við tillögur til úrbóta er á lokastigi en um leið og þær liggja fyrir verða niðurstöðurnar kynntar.“