Alls hafa 8.836 manns verið atvinnulausir í lengri tíma en sex mánuði, en það eru 70 prósent þeirra 12.537 sem voru atvinnulausir í lok síðasta mánaðar. Þeir sem höfðu verið án atvinnu í meira en ár voru 5.361, eða um 43 prósent allra atvinnulausra. Til samanburðar voru þeir sem höfðu verið án atvinnu í meira en ár í lok júlí í fyrra 2.854. Þeim hefur því fjölgað um 88 prósent á milli ára.
Þetta mál lesa út úr ítarefni sem fylgir nýrri skýrslu Vinnumálastofunnar um vinnumarkaðinn í júlí 2021 og birt var í vikunni.
Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir því að fjöldi þeirra sem hafa verið án atvinnu í yfir 12 mánuði muni fara minnkandi næstu mánuði, en stofnunin spáir því að atvinnuleysi haldi áfram að dragast saman í ágústmánuði.
Heildaratvinnuleysi lækkaði í júlí mánuði og mælist nú 6,1 prósent. Það hefur ekki verið lægra frá því áður en að kórónuveirufaraldurinn skall á snemma árs í fyrra, en til samanburðar mældist atvinnuleysi 11,4 prósent í febrúar síðastliðnum.
Ástæður þess að atvinnuleysið hefur minnkað svona hratt eru aðallega tvíþættar. Annars vegar er um árstíðabundna sveiflu að ræða, en störfum fjölgar mikið á sumrin á Íslandi þegar háannatíma mannaflsfrekasta atvinnuvegar þjóðarinnar, ferðaþjónustu, gengur í garð. Þegar ferðamönnum fer að fækka á ný með haustinu má ætla, miðað við þróun fyrri ára, að störfum í ferðaþjónustugeiranum fækki samhliða.
Kjarninn greindi frá því í frétt um miðjan júlí að um fimm þúsund umsóknir um ráðningastyrki hefðu verið afgreiddar og að heildargreiðslur í tengslum við átakið á þeim tíma hefðu numið 1,4 milljarði króna.
Kemur í ljós í haust hvort um framtíðarstörf sé að ræða
Nokkrar tegundir styrkja eru í boði. Samkvæmt yfirliti yfir styrkina á heimasíðu Vinnumálastofnunar geta fyrirtæki fengið styrk sem nemur allt að 307.430 krónum á mánuði að viðbættu mótframlagi í lífeyrissjóð, samtals tæplega 343 þúsund krónur, í sex mánuði ef fyrirtækið ræður starfsmann sem hefur verið á atvinnuleysisskrá í að minnsta kosti einn mánuð. Lítil og meðalstór fyrirtæki með færri en 70 starfsmenn geta fengið enn hærri styrk. Ef slíkt fyrirtæki ræður atvinnuleitanda sem hefur verið á atvinnuleysisskrá í að minnsta kosti ár fær það styrk sem nemur fullum mánaðarlaunum að hámarki tæplega 473 þúsund krónum að viðbættu mótframlagi í lífeyrissjóð, samtals rúmlega 527 þúsund krónur.
Til að setja umfang þessa átaks í einhverskonar samhengi þá greindi Vinnumálastofnun frá því í nýjustu skýrslu sinni um vinnumarkaðinn að 89 prósent allra auglýstra starfa í júlímánuði hafi verið átaksverkefni eða reynsluráðningar.
Ráðningastyrkir þeirra sem voru ráðnir á slíkum strax í upphafi renna út í október, skömmu eftir komandi kosningar. Þá á eftir að koma í ljós hversu mörgum þeirra sem hafa verið ráðnir á slíkum styrkjum verði haldið í vinnu þegar atvinnurekendur þurfa að fara að greiða laun þeirra í heild.